Fótbolti

Sigur hjá HK en jafnt í markaleik Keflavíkur og Fylkis

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sindri Þór skoraði fyrir Keflavík í dag.
Sindri Þór skoraði fyrir Keflavík í dag. Vísir/Hulda Margrét

Keflavík og Fylkir gerðu 2-2 jafntefli þegar liðin mættust í Lengjubikarnum í Keflavík í dag. Þá vann HK sigur á ÍA með marki á lokamínútu leiksins.

Keflavik og Fylkir leika bæði í Bestu deildinni í sumar og voru bæði búin að ná í sigra hingað til í keppninni. Keflavík hafði unnið sigra á KA og Þrótti en Fylkir vann stórsigur á Þór frá Akureyri í síðustu umferð.

Það var nóg af mörkum í Keflavík í dag. Fylkir komst yfir strax á 7.mínútu þegar Nikulás Val Gunnarsson skoraði en Sindri Þór Guðmundsson jafnaði fyrir Keflavík rétt fyrir hálfleik og staðan 1-1.

Bæði lið bættu við mörkum í síðari hálfleiknum. Nýr leikmaður Keflavíkur, Sami Kamel, skoraði úr víti á 55.mínútu en Birkir Eyþórsson jafnaði sjö mínútum fyrir leikslok og tryggði Fylki 2-2 jafntefli 

Í Kórnum mættust lið HK og ÍA. HK eru nýliðar í Bestu deildinni en Skagamenn féllu niður í Lengjudeildina á síðasta tímabili.

Það var aðeins eitt mark skorað í leiknum í Kórnum. Það gerði Oliver Haurits fyrir HK á lokamínútunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×