Innlent

Boðið flug og uppi­hald fyrir að smygla tveimur kílóum af kókaíni

Atli Ísleifsson skrifar
Maðurinn var handtekinn eftir komuna til landsins frá Varsjá á Þorláksmessu. Myndin er úr dómsal í Héraðsdómi Reykjaness í Hafnarfirði.
Maðurinn var handtekinn eftir komuna til landsins frá Varsjá á Þorláksmessu. Myndin er úr dómsal í Héraðsdómi Reykjaness í Hafnarfirði. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann á fertugsaldri í tveggja ára fangelsi fyrir smygl á rúmum tveimur kílóum af kókaíni til landsins.

Maðurinn, Lázló Balla, er ríkisborgari Ungverjalands og Úkraínu og var ákærður fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa staðið að innflutningi á tæplega 2,2 kílóum af kókaíni. Hann flutti efnin sem farþegi í vél frá Varsjá í Póllandi til Keflavíkur þann 23. desember síðastliðinn.

Balla var með efnin falin í farangri og var styrkleiki þeirra 83 prósent. Var talið að þau hafi verið ætluð til söludreifingar hér á landi.

Balla játaði sök í málinu. Í dómi kemur fram að hann hafi ekki áður orðið uppvís að refsiverðri háttsemi svo kunnugt sé. Ekki verði ráðið af gögnum að hann hafi verið eigandi efnanna eða tekið þátt í skipulagningu á kaupum og innflutningi þeirra til Íslands með öðrum hætti en þeim að samþykkja að flytja efnin til landsins.

Balla kvaðst hafa átt að fá borgað fargjaldið til Íslands og uppihald í nokkra daga, en hann er sagður hafa verið samvinnuþýður við rannsókn málsins.

Hæfileg refsing ákærða var metin tveggja ára fangelsi, en til frádráttar kemur gæsluvarðhald sem hann hafði sætt frá komunni til landisns. Balla var jafnframt gert að greiða málsvarðarlaun skipaðs verjanda og sakarkostnað, samtals um 1,3 milljónir króna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×