Fótbolti

Ó­vænt endur­koma Tuchel til Parísar í kortunum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Thomas Tuchel stýrði PSG frá 2018 til 2020.
Thomas Tuchel stýrði PSG frá 2018 til 2020. EPA-EFE/JUANJO MARTIN

Thomas Tuchel gæti óvænt tekið við París Saint-Germain á nýjan leik en hann var rekinn frá liðinu í desember 2020. Núverandi þjálfari, Christophe Galtier, fær til 8. mars til að bjarga starfi sínu.

Það er fátt öruggt í heimi fótboltans en þessa dagana er alltaf hægt að reikna með drama í París. Liðið er sem stendur með fimm stiga forskot á toppi frönsku úrvalsdeildarinnar en féll úr leik í franska bikarnum á dögunum.

Þá tapaði það 0-1 á heimavelli í fyrri leik einvígisins gegn Bayern München í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Var það þriðja tap liðsins í röð, í öllum keppnum. Liðið virtist vera að tapa fjórða leiknum í röð en tókst að landa sigri á Lille með tveimur mörkum í blálokin.

Í þeim leik mætti Luis Campos, íþróttastjóri félagsins, niður á hliðarlínuna. Það benti sterklega til þess að dagar Galtier væru taldir. Zinedine Zidane hefur verið nefndur sem líklegur eftirmaður en hann mun ekki taka við franska landsliðinu í bráð eins og hann vildi þar sem Didier Deschamps skrifaði nýverið undir nýjan samning.

Annar sem hefur verið nefndur til sögunnar sem arftaki Galtier er téður Tuchel en hinn 49 ára gamli Þjóðverji var rekinn á jóladag árið 2020. Hann hafði unnið frönsku úrvalsdeildina tvívegis sem þjálfari liðsins, franska deildarbikarinn og franska bikarinn ásamt því að koma liðinu alla leið í úrslit Meistaradeildar Evrópu.

Eftir að hann var rekinn frá PSG tók hann við Chelsea og gerði liðið að Evrópumeisturum. Hann var svo rekinn þaðan fyrr á þessu tímabili.

Talið er að Tuchel sé ekki æstur í að taka við PSG á nýjan leik eftir meðhöndlun félagsins á honum. Munurinn nú er sá að skipt hefur verið um íþróttastjóra. Tuchel og Leonardo, þáverandi íþróttastjóra félagsins, lenti saman fyrir þremur árum en í dag er Leonardo horfinn á braut og Campos tekinn við.

Hvort Tuchel taki starfinu eða ekki virðist styttast í að PSG skipti um þjálfara enn á ný. Í raun má bóka að það gerist fari svo að Bayern slái liðið út úr Meistaradeild Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×