Madrídingar komu til baka og völtuðu yfir Liverpool

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Karim Benzema skoraði tvö fyrir Madrídinga í kvöld.
Karim Benzema skoraði tvö fyrir Madrídinga í kvöld. Angel Martinez/Getty Images

Real Madrid vann öruggan 5-2 útisigur er liðið heimsótti Liverpool í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í kvöld.

Það voru þó heimamenn í Liverpool sem byrjuðu mun betur og liðið skoraði gott mark strax á fjórðu mínútu þegar Darwin Nunez stýrði fyrirgjöf Mohamed Salah snyrtilega í netið með hælnum.

Salah var svo sjálfur á ferðinni tíu mínútum síðar þegar hann tvöfaldaði forystu Liverpool eftir klaufaleg mistök Thibaut Courtois í marki Madrídinga.

Vinicius Jr. minnkaði þó muninn fyrir gestina með góðu skoti á 21. mínútu og tæpum tíu mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks jafnaði hann metin þegar hann nýyi sér klaufaleg mistök Alisson í marki Liverpool. Staðan var því 2-2 í hálfleik og bæði lið búin að skora eftir mistök markvarða.

Síðari hálfleikur hófst svo á svipuðum nótum og sá fyrri endaði. Eder Militao kom Madrídingum í forystu þegar hálfleikurinn var aðeins þriggja mínútna gamall og á 56. mínútu skoraði Karim Benzema fjórða mark gestanna eftir stoðsendingu frá Rodrygo.

Benzema var svo aftur á ferðinni rúmum tíu mínútum síðar þegar hann gulltryggði sigur Madrídinga eftir stoðsendingu frá Vinicius Jr.

Niðurstaðan því 5-2 sigur Real Madrid og liðið fer með þriggja marka forskot í seinni leik liðanna sem fer fram á heimavelli Madrídinga þann 15. mars næstkomandi.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira