Erlent

Fimm­tíu þúsund vetrar­brautir á einni mynd

Kjartan Kjartansson skrifar
Djúpmynd James Webb-sjónaukans af Pandóruþyrpingunni. Rauðleitu ljósdílarnir eru enn fjarlægari vetrarbrautir fyrir aftan þyrpinguna sem eru sýnilegar fyrir tilstuðlan náttúrulegrar þyngdarlinsu sem þyrpingin myndar.
Djúpmynd James Webb-sjónaukans af Pandóruþyrpingunni. Rauðleitu ljósdílarnir eru enn fjarlægari vetrarbrautir fyrir aftan þyrpinguna sem eru sýnilegar fyrir tilstuðlan náttúrulegrar þyngdarlinsu sem þyrpingin myndar. NASA, ESA, CSA, I. Labbe (Swinburne University of Technology), R

Djúpmynd sem James Webb-geimsjónaukinn tók nýlega skartar um það bil fimmtíu þúsund vetrarbrautum sem eru í milljarða ljósára fjarlægð frá jörðinni. Myndin er ein sú dýpsta sem sjónaukinn hefur tekið til þessa.

Vetrarbrautirnar á myndinni tilheyra svonefndri Pandóraþyrpingu (Abell 2744) sem er í raun samsett úr nokkrum minni vetrarbrautarþyrpingum. Stjörnufræðingar hafa aldrei áður náð að greina eins mikil smáatriði í þyrpingunni en fram að þessu hafa þeir aðeins náð að rannsaka kjarna hennar, að því er segir í grein á Stjörnufræðivefnum.

Samanlagður massi vetrarbrautanna myndar svonefnda þyngdarlinsu þegar tímarúmið svignar og magnar upp ljós frá vetrarbrautum sem eru fyrir aftan þær og mun lengra í burtu. Þessar enn fjarlægari vetrarbrautir virkar rauðleitar á mynd Webb. Þær birtast einnig bjagaðar með bogadregnum línum og sveigjum vegna linsuáhrifanna.

Webb starði á ofurþyrpinguna í um þrjátíu klukkustundir til þess að safna sem mestu ljósi. Myndin er samsett úr fjórum ljósmyndum sem sjónaukinn tók á þeim tíma. 

Næst ætla stjörnufræðingarnar að hella sér yfir gögnin og velja vetrarbrautir til þess að fylgjast frekar með. Ætlunin er að gera nákvæmar fjarlægðarmælingar og kanna frekar samsetningu fjarlægu vetrarbrautanna sem sjást fyrir tilstilli þyngdarlinsunnar. Þær rannsóknir geta varpað nýju ljósi á hvernig vetrarbrautir mynduðust og þróuðust í árdaga alheimsins.

Hægt er að nálgast mynd Webb í fullri upplausn á vef evrópsku geimstofnunarinnar (ESA).



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×