Fótbolti

Valur hafði betur í Reykjavíkurslag Lengjubikarsins

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sigurður Egill Lárusson skoraði seinna mark Vals í dag.
Sigurður Egill Lárusson skoraði seinna mark Vals í dag. Vísir/Hulda Margrét

Valur vann 2-0 sigur á KR þegar liðin mættust í Lengjubikarnum í knattspyrnu í dag. Mörkin komu í sitt hvorum hálfleiknum en þetta var fyrsti leikur liðanna í keppninni.

Lengjubikarinn er kominn af stað og liðin að leika sína fyrstu leiki. Stórleikur þessarar umferðar var klárlega Reykjavíkurslagur Vals og KR sem mættust á Origo-vellinum í dag.

Valsmenn náðu forystunni eftir fimmtán mínútna leik þegar Kristinn Freyr Sigurðsson skoraði. Adam Ægir Pálsson rauk þá upp hægri kantinn og fann Kristin Frey sem var einn og yfirgefinn í teignum, Kristinn tók rólega við boltanum og lagði hann framhjá Aroni Snæ Friðrikssyni í marki KR.

Staðan í hálfleik var í 1-0 en í síðari hálfleik bættu Valsmenn við marki. Þeir fengu þá óbeina aukaspyrnu í vítateig KR eftir að Aron Snær hafði tekið boltann með höndum eftir sendingu frá samherja. Boltanum var rennt á Sigurð Egil Lárusson sem lagði boltann auðveldlega í fjærhornið.

Lokatölur í dag 2-0 og Valsmenn komnir með þrjú stig í riðli liðanna í Lengjubikarnum. Í sama riðli vann HK 4-0 sigur á Grindavík í gær og þá vann ÍA 4-3 sigur á Vestra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×