Erlent

Ástralir fjar­lægja 900 öryggis­mynda­vélar frá Kína úr opin­berum byggingum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það eru eftirlitsmyndavélar út um allt. Spurning er bara... hver er að fylgjast með?
Það eru eftirlitsmyndavélar út um allt. Spurning er bara... hver er að fylgjast með?

Stjórnvöld í Ástralíu hafa ákveðið að fjarlægja um það bil 900 öryggismyndavélar framleiddar í Kína úr opinberum byggingum. Þau segja vélarnar, frá fyrirtækjunum Hikvision og Dahua, mögulega ógn við öryggi landsins.

Öryggismyndavélar frá framleiðendum í Kína hafa þegar verið bannaðar í opinberum byggingum í Bandaríkjunum og á Bretlandseyjum. Bandarísk yfirvöld segja vélarnar óásættanlega ógn við þjóðaröryggi, vegna möguleikans á njósnum og annarri misnotkun.

Varnarmálaráðherra Ástralíu, Richard Marles, sagði í morgun að ákveðið hefði verið að ráðast í rannsókn á eftirlitsbúnaði hjá hinum opinbera eftir að upp komst að að minnsta kosti 913 öryggismyndavélar frá Kína hefðu verið settar upp í fleiri en 250 opinberum byggingum.

„Þar sem þær finnast verða þessar vélar fjarlægðar,“ sagði Marles í samtali við ABC Radio. „Þetta er vandamál og við ætlum að takast á við það.“ Marles sagði augljóst að myndavélarnar hefðu valdið aukinni áhættu í nokkurn tíma en nú stæði til að tryggja öryggi allra þeirra staða sem um ræddi. 

Anthony Albanese forsætisráðherra sagðist á blaðamannafundi ekki telja að ákvörðunin myndi hafa skaðleg áhrif á diplómatísk samskipti við Kína en hún snérist um að standa vörð um þjóðarhagsmuni Ástrala.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.