Málið snýr að innflutningi á um hundrað kílóum af kókaíni til landsins. Efnunum var komið fyrir í timburdrumbum í gámum í Brasilíu en sendingin fór fyrst til Hollands. Lögreglan á Íslandi komst á snoðir um smyglið vegna rannsóknar á skipulagðri brotastarfsemi og lét tollverði í Rotterdam í Hollandi vita. Kókaíninu var skipt út fyrir gerviefni áður en gámurinn var sendur áfram til Íslands.
Aðalmeðferð í málinu er langt komin og hafa fjórir Íslendingar sem sæta ákæru gefið skýrslu. Til stóð að hollenskir tollverðir gæfu skýrslu við framhald aðalmeðferðar sem sett hafði verið á dagskrá á fimmtudag og föstudag í þessari viku. Nú er ljóst að ekki verður af því.
Anna Barbara Andradóttir, saksóknari í málinu, segir í samtali við Fréttablaðið að erfitt hafi reynst að fá vitni að utan og verið sé að reyna að finna nýjan tíma til að taka skýrslur af Hollendingunum.
Unnsteinn Örn Elvarsson, verjandi Páls Jónssonar timbursala sem er meðal ákærðu í málinu, segir frestunina koma afskaplega illa við sinn mann.
„Hann fer að verða búinn að vera í sjö mánuði í gæsluvarðhaldi. Ef maður horfir til skýrslu Amnesty um daginn þá finnst manni það verulega vafasamt,“ segir Unnsteinn Örn.
Páll hefur sætt gæsluvarðhaldi eins og hinir sakborningarnir þrír frá því þeir voru handteknir í ágúst.
„Maður áttar sig ekki á því hvers vegna hálfsjötur maður með enga sögu þarf að vera í gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna,“ segir Unnsteinn Örn.
Auk skýrslutöku yfir Hollendingunum er von á einum til tveimur íslenskum lögreglumönnum fyrir dóminn.
Dómari í málinu meinaði fjölmiðlum að fjalla um málið fyrr en skýrslutöku yfir öllum málsaðilum væri lokið. Fréttastofa sendi Sigríðu Elsu Kjartansdóttur, dómara í málinu, fyrirspurn fyrir rúmum tveimur vikum og óskaði eftir rökstuðningi fyrir fjölmiðlabanninu. Fyrirspurn var ítrekuð í morgun en hefur enn ekki verið svarað.