Fótbolti

Uppfært: Atsu enn ófundinn

Sindri Sverrisson skrifar
 Christian Atsu varð fyrir barðinu á jarðskjálftanum mannskæða í Tyrklandi.
 Christian Atsu varð fyrir barðinu á jarðskjálftanum mannskæða í Tyrklandi. Getty

Ekki hefur tekist að bjarga ganverska fótboltamanninum Christian Atsu úr rústum byggingar eftir jarðskjálftann mikla í Tyrklandi í fyrrinótt.

Uppfært: Umboðsmaður Atsu hefur nú staðfest að Atsu sé ófundinn og Mustafa Özat, talsmaður Hatayspor, viðurkennt að hafa verið með rangar upplýsingar þegar hann ræddi við fjölmiðla og sagði að Atsu hefði fundist á lífi.

Atsu, sem er fyrrverandi leikmaður Chelsea og Newcastle, hafði skorað dramatískt sigurmark Hatayspor gegn Kasimpasa í fyrrakvöld. Um nóttina grófst hann undir húsarústum vegna jarðskjálfta upp á 7,8 en Hatay-héraðið varð einna verst úti vegna skjálftans.

Eftir misvísandi fréttir í gærkvöld staðfesti Mustafa Özat, talsmaður Hatayspor, í morgun að Atsu hefði nú fundist á lífi. Hann hefði verið fluttur á sjúkrahús þar sem gert er að sárum hans. Nú er orðið ljóst að þessar fullyrðingar Özat voru rangar.

Özat sagði að hins vegar væri því miður enn verið að leita að Taner Savut, íþróttastjóra Hatayspor, í rústunum.

Tala látinna af völdum skjálftans, sem átti upptök sín nærri Gaziantep í Tyrklandi, heldur áfram að hækka en þegar þetta er skrifað hafa yfir 4.300 manns látist í Tyrklandi og Sýrlandi vegna hans.

Að minnsta kosti 13.740 manns vinna nú að því að finna fólk og bjarga því á þeim svæðum þar sem jarðskjálftinn olli tjóni, samkvæmt hamfara- og neyðarstofnun Tyrklands.


Tengdar fréttir

„Gat ekki staðið í lappirnar og var mjög hrædd“

„Þetta er skelfilegt,“ segir Birkir Bjarnason, leikjahæsti landsliðsmaður Íslands í fótbolta, sem býr ásamt kærustu sinni í Tyrklandi þar sem risastór jarðskjálfti reið yfir í nótt og hefur orðið fjölda fólks að bana.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.