Sara Björk, sem er 32 ára gömlu, tilkynnti í síðasta mánuði að hún væri hætt í landsliðinu en hún hafði verið fyrirliði þess um árabil.
Sara á metið yfir flesta A-landsleiki íslensks knattspyrnufólks en hún spilaði 145 leiki eftir að hafa spilað þann fyrsta í ágúst 2007, þegar hún var enn aðeins 16 ára gömul.
„Auðvitað er mikill missir að hún sé að hætta og það vita allir hvað hún hefur gert fyrir íslenskan fótbolta. Og hversu mikill leiðtogi, sterkur karakter og fyrirmynd hún hefur verið innan hópsins og utan vallar líka. Auðvitað er þetta gríðarlegur missir,“ sagði Þorsteinn á blaðamannafundi í dag eftir að hafa kynnt fyrsta landsliðshóp sinn eftir ákvörðun Söru. Þar kom meðal annars fram að Glódís Perla Viggósdóttir tæki við af Söru sem fyrirliði.
Þorsteinn var spurður hvort hann hefði reynt að telja Söru hughvarf en sagði að Sara hefði þegar verið búin að taka sína ákvörðun þegar þau ræddu saman:
„Við áttum samtal og fyrir mig snerist það ekkert endilega um að snúa ákvörðun hennar við. Ég hafði ákveðinn skilning á því sem hún sagði við mig. Þetta var ákvörðun sem hún var búin að taka þegar við ræddum saman og það var ekkert þannig séð sem ég gat gert til að breyta því. Ég skildi hennar ákvörðun,“ sagði Þorsteinn.