Fótbolti

Arsenal strákur markahæstur í frönsku deildinni: Ofar en Mbappe og Neymar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Folarin Balogun fagnar einu marka sinna með Reims á tímabilinu.
Folarin Balogun fagnar einu marka sinna með Reims á tímabilinu. Getty/Jean Catuffe

Folarin Balogun skoraði þrennu fyrir Reims í frönsku deildinni í gær og er þar með orðinn markahæsti leikmaðurinn í Ligue 1.

Balogun hefur skorað fjórtán mörk í fyrstu tuttugu leikjunum með Reims. Hann hefur skorað einu marki meira en Kylian Mbappé og tveimur mörkum meira en Neymar sem báðir spila með Paris Saint Germain.

Þessi 21 árs gamli strákur er þó ekki í eigu franska liðsins heldur þar á láni frá Arsenal. Reims fékk hann á láni fram á sumar en hann er með samning við Arsenal út júní 2025.

Balogun tryggði Reims 1-1 jafntefli á móti PSG í leiknum á undan og fylgdi því eftir með þrennu í gær. Hann skoraði hana á tuttugu mínútum eða frá 44. til 64. mínútu. Fyrsta markið hans í leiknum kom úr vítaspyrnu.

Balogun kom fyrst í Arsenal þegar hann var átta ára gamall og skrifaði undir fyrsta atvinnumannasamninginn sinn í febrúar 2019. Hann skoraði sín fyrstu og einu mörk með Arsenal í Evrópudeildini tímabilið 2020-21.

Balogun fór á láni til Middlesbrough eftir áramót í fyrra en náði bara að skora 3 mörk í 18 leikjum með liðinu í ensku b-deildinni.

Hann fann aftur á móti skotskóna í Frakklandi og er nú orðinn markahæstur. Það munaði miklu um að skora í fyrstu þremur deildarleikjunum og enn fremur í fimm af fyrstu sex.

Hann hefur síðan verið sjóðheitur í síðustu leikjum og Arsenal á greinilega framtíðar markaskorara í Balogun sem væri viðbót við allan þann fjölda ungra og spennandi leikmanna sem eru í röðum toppliðs ensku úrvalsdeildarinnar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×