Erlent

Allt í volli í dýra­­garðinum í Dallas: Dýr að sleppa og grun­sam­legur dauð­­dagi hræ­gamms

Bjarki Sigurðsson skrifar
Til vinstri má sjá keisaratamarin apa og til hægri er labbóttur hrægammur.
Til vinstri má sjá keisaratamarin apa og til hægri er labbóttur hrægammur. Getty

Dularfull hvörf og grunsamlegur dauðdag hrægamms í dýragarðinum í Dallas eru nú til rannsóknar hjá lögreglunni í borginni. Í gær komst í ljós að tveimur keisaratamarin öpum hafði verið stolið úr garðinum en skömmu fyrir það fannst hrægammur sem lést dularfullum dauðdaga.

Dýragarðurinn í Dallas er sá stærsti og elsti sinnar tegundar í Texas-ríki í Bandaríkjunum en honum var komið á laggirnar árið 1888. Þar búa yfir tvö þúsund dýr og heimsækja rúmlega milljón manns garðinn á ári hverju. 

Í janúar var greint frá því að hlébarði hafi sloppið úr búri sínu en hann fannst heill á húfi sama dag. Svo virtist sem gat hafi verið sagað á búr hlébarðans og hann þannig sloppið. Honum tókst ekki að koma sér úr garðinum sjálfum og fannst stuttu frá búrinu sínu. Þá fannst einnig gat á búri langur-apanna en engum þeirra tókst að sleppa. 

Í síðustu viku fannst labbóttur hrægammur, sem er í útrýmingarhættu, dauður í garðinum. Garðurinn bauð tíu þúsund dollara í verðlaun fyrir þá sem gætu veitt upplýsingar um dauða hans en á honum var „grunsamlegt sár“ sem talið er að hafa leitt hann til dauða. 

Það var síðan á mánudaginn sem enn einn dularfulli atburðurinn átti sér stað. Þá sluppu tveir keisaratamarin apar úr búri sínu eftir að sagað var gat á það. Lögregla taldi að öpunum hafi verið rænt. Þeir fundust síðan í gærkvöldi í skáp í yfirgefnu húsnæði um 26 kílómetrum frá Dallas. 

Enginn hefur verið handtekinn vegna málsins en lögreglan í Dallas bað í gær um aðstoð almennings við að finna mann sem talinn er eiga aðild að málinu. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.