Fimm lögreglumenn í Tennessee hafa verið ákærðir fyrir að hafa barið Nichols til bana eftir að hafa stöðvað hann við umferðareftirlit. Líkamsárásin er sögð hafa átt sér stað um 73 metrum frá heimili móður hans. Þetta má lesa í umfjöllun Guardian um málið.
Lögreglumennirnir hafa allir verið reknir og gætu átt yfir höfði sér allt að sextíu ára fangelsi verði þeir sakfelldir. Lögreglan í Memphis segir að verklagsreglur hafi verið þverbrotnar, með óhóflegri valdbeitingu og auk þess að hafa ekki komið manni í lífsháska til hjálpar. Í upphafi gaf lögregla út að Nichols hafi verið stöðvaður vegna gruns um glæfralegan akstur en embættið hefur ekki birt nein gögn því til stuðnings.
Varað er við ofbeldisfullu efni í myndskeiðinu.
Lögreglustjóri segir að valdbeitingin hafi verið svívirðileg. Greint hefur verið frá því að bandarísk yfirvöld óttist að það sjóði upp úr í kjölfar birtingar myndbandsins en atvikið er það nýjasta í röð áberandi mála þar sem svartur maður lést í haldi lögreglu án þess að hann grípi til vopns. Hefur Joe Biden Bandaríkjaforseti hvatt fólk í Tennessee-ríki til að halda ró sinni. Hefur viðbúnaður lögreglu verið aukinn til muna vegna þessa en fólk hefur komið saman í Memphis til að mótmæla aðgerðum lögreglu í kjölfar birtingarinnar.
Reyndi að flýja lögreglu
Nýbirtar upptökur úr öryggismyndavélum og búkmyndavélum lögreglu gefa til kynna að yfir tuttugu mínútur hafi liðið frá því að barsmíðunum lauk þar til sjúkrabíll kom á vettvang.
Á myndbandinu má sjá hvernig tveir lögreglumenn nálguðust Nichols á gatnamótum í Memphis og skipuðu honum ítrekað að stíga út úr bílnum áður en hann var dreginn út.

„Ég gerði ekki neitt“ heyrist Nichols segja þegar annar lögreglumannanna skipar honum að leggjast á jörðina og hótar að beita rafbyssu. Þegar hinn 29 ára Nichols er kominn niður á jörðina tjáir hann þeim að honum þyki þessi viðbrögð vera fullharkaleg miðað við aðstæður: „Ég er bara að reyna að komast heim.“
Skömmu síðar stendur hann upp og tekur á sprett frá lögreglu. Heyrist þá einn lögregluþjónanna segjast vona að „þeir berji hann“. Þegar Nichols var handsamaður aftur á öðrum gatnamótum létu lögreglumennirnir höggin dynja á honum í nokkrar mínútur og veittu honum þannig alvarlega áverka. Myndskeið úr nálægri öryggismyndavél virðist sýna hvernig einn þeirra sparkaði tvisvar í höfuð hans á meðan Nichols lá handjárnaður á jörðinni.