Lífið

Bríet tók sjálf þátt í hæfi­leika­þætti áður en hún varð lands­þekkt

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Tónlistarkonan Bríet sem hefur setið í dómnefnd Idolsins síðustu vikur tók sjálf þátt í hæfileikaþætti fyrir nokkrum árum.
Tónlistarkonan Bríet sem hefur setið í dómnefnd Idolsins síðustu vikur tók sjálf þátt í hæfileikaþætti fyrir nokkrum árum. Skjótskot-Vísir/Hulda Margrét

Eins og vart hefur farið fram hjá neinum verður ný Idolstjarna krýnd í kvöld. Það er þó ekki aðeins sigurvegarinn sjálfur sem á möguleika á því að verða stjarna, heldur hafa fleiri keppendur sungið sig inn í hug og hjörtu landsmanna og á þjóðin eflaust eftir að sjá meira af þeim.

Fjölmargar íslenskar stjörnur stigu sín fyrstu skref í söngva- eða hæfileikakeppnum á borð við Idol, Söngkeppni framhaldsskólanna og Ísland Got Talent. Í haust rifjaði Vísir upp nokkra þjóðþekkta einstaklinga sem höfðu reynt fyrir sér í Idolinu áður en þeir slógu í gegn í tónlistinni. Má þar nefna tónlistarmanninn Emmsjé Gauta og Nylon-stúlkurnar Ölmu og Steinunni.

Sjá: 6 dagar í Idol: Reyndu fyrir sér í Idol áður en þær urðu Nylon stjörnur

Margir sem tóku fyrstu skrefin í Söngkeppni framhaldsskólanna

Íslensku tónlistarstjörnurnar Páll Óskar, Hera Björk, Regína Ósk og Nanna Bryndís eiga það öll sameiginlegt að hafa tekið þátt í Söngkeppni framhaldsskólanna án þess þó að hafa unnið.

Idol-dómarinn og poppgopsögnin Birgitta Haukdal tók einnig sín fyrstu skref í tónlistinni í þeirri keppni áður en hún sló í gegn með Írafár. Hún sagði frá því í þættinum Körrent á dögunum að hún hefði tvisvar sinnum tekið þátt í undankeppninni í sínum skóla og komst hún ekki inn í aðalkeppnina fyrr en í þriðju tilraun.

Birgitta ekki eini Idol dómarinn sem hóf ferilinn í hæfileikakeppni

„Ef ég hefði bara tekið einu sinni þátt og tapað og mætt aldrei aftur, þá væri ég ekki heldur að vinna við það sem mig dreymdi um. Þannig við verðum að mæta og taka þátt. Hvað er það versta sem getur gerst? Við komumst ekki áfram eða vinnum ekki,“ sagði Birgitta.

Sjá: Söng­keppnin sem olli straum­hvörfum í lífi Birgittu Hauk­dal

Birgitta er þó ekki eini Idol dómarinn sem hóf sinn feril í hæfileikakeppni, því þjóðin kynntist söngkonunni og Idol dómaranum Bríeti fyrst í þáttunum Ísland Got Talent árið 2015. Hún komst alla leið í úrslitaþáttinn en að lokum var það söngkonan Alda Dís sem stóð uppi sem sigurvegari.

Hér má sjá flutning Bríetar á laginu Án þín með Trúbrot úr Ísland Got Talent.

Símon  Grétar fékk þrefalda höfnun í Ísland Got Talent

Idol keppandinn Símon Grétar hefur slegið rækilega í gegn síðustu vikur en hann var sendur heim síðasta föstudag. Hann sagði frá því í viðtali á dögunum að Idolið hafi ekki verið fyrsta keppnin sem hann hefði reynt við. Þegar hann var 21 árs tók hann þátt í Ísland Got Talent þar sem hann fékk þrjú „nei“ eftir sinn fyrsta flutning. Þó svo það hafi brotið hann niður á þeim tíma, gafst hann ekki upp og skráði sig í Idol þar sem hann komst alla leið í fjögurra manna úrslit.

Sjá: Fékk þre­falda höfnun í Ís­land Got Talent en gafst ekki upp

Símon Grétar sló í gegn í Idolinu þrátt fyrir að hafa fengið þrefalda höfnun í Ísland Got Talent.STÖÐ 2/GOTTSKÁLK DAÐI BERNHÖFT REYNISSON

Glowie hafnað en var seinna beðin um að koma fram

Svipaða sögu má segja af tónlistarkonunni Söru Pétursdóttur. Sara tók þátt í Ísland Got Talent árið 2014 en rétt eins og Símoni var henni hafnað. Hún gafst þó ekki upp á söngnum og sama ár stóð hún uppi sem sigurvegari Söngkeppni framhaldsskólanna.

Sara átti þó eftir að stíga aftur á svið í Ísland Got Talent, því tveimur árum síðar, þegar hún hafði slegið í gegn undir listamannsnafninu Glowie, var hún fengin til þess að frumflytja nýtt lag á milli atriða í keppninni. 


Tengdar fréttir

Hætt að vera Glowie í bili

Tónlistarkonan Glowie ætlar að segja skilið við tónlistina í bili og einbeita sér að því að vera bara Sara Pétursdóttir. Hún segir mikið álag hafa fylgt því að vera í sviðsljósinu frá ungum aldri og nú ætli hún að taka sér tíma í það að vera fullorðin. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×