„Ég skal segja ykkur það, það er Söngkeppni framhaldsskólanna,“ sagði Birgitta þá og bætti við: „Ef ég hefði ekki tekið þátt í henni þá væri ég bara á Húsavík að vinna á leikskólanum eða í bakaríinu, sem væri fínt líka, en ég væri ekki að vinna við tónlist.“
Hér má sjá brot úr viðtalinu:
Hefði líklega ekki þorað í Idolið
Aðspurð hvort hún hefði farið í Idolið á þeim tíma ef ekki hefði verið fyrir Söngkeppnina svaraði Birgitta:
„Það er alveg spurning. Ég held að ég hefði ekki þorað því sko. Mig hefði langað, ég hefði jafnvel mætt og verið í röðinni, fengið spjaldið og allt og svo hefði ég örugglega beilað. Ég var með rosalega lítið hjarta.“
Hún segist hafa upplifað efasemdir í eigin garð, eins og allir unglingar fara í gegnum.
„Það efast allir unglingar um sig en eiga samt draum. Maður er alltaf að hugsa á ég að gera þetta, á ég að taka þátt, verður manni strítt, verður maður gagnrýndur, mun manni mistakast? Við erum öll að glíma við það sama sko, ég hafði rosa lítið hjarta.
Ég man þegar ég var að taka þátt í undankeppninni, bara skólasöngkeppninni fyrir framhaldsskólakeppnina. Ég var að deyja úr stressi.“
Mikilvægt að mæta
Birgitta Haukdal leggur því mikla áherslu á að kýla á hlutina.
„Mér finnst líka svo mikilvægt, af því nú er ég dómari í Idolinu, að segja fólki að mæta. Ég tók tvisvar sinnum þátt í Söngkeppni framhaldsskólana áður en ég vann hana, sem sagt fyrir minn skóla.
Ef ég hefði bara tekið einu sinni þátt og tapað og mætt aldrei aftur, þá væri ég ekki heldur að vinna við það sem mig dreymdi um. Þannig við verðum að mæta og taka þátt.
Hvað er það versta sem getur gerst? Við komumst ekki áfram eða vinnum ekki.“
Þriðja þátt af Körrent má finna í heild sinni í spilaranum hér að neðan.
Í þáttunum Körrent ætla þau Lil Curly, Dóra Júlía og Kristín Ruth að vera með puttann á púlsinum á Idolinu næstu vikurnar ásamt því að fylgjast grant með víbrum borgarinnar og öllu sem er körrent í íslensku samfélagi í dag, hvort sem það er djammið eða háfleygir menningarviðburðir.
Þættirnir verða aðgengilegir á fimmtudögum á Vísi, Stöð 2 Vísi og Stöð 2+ ásamt því að vera í dagskrá á Stöð 2 á föstudögum fyrir kvöldfréttir.