Erlent

Tveggja tíma um­sátri lokið og birta mynd af meintum á­rásar­manni

Bjarki Sigurðsson skrifar
Lögreglan telur að þessi hvíti sendiferðabíll tengist árásinni.
Lögreglan telur að þessi hvíti sendiferðabíll tengist árásinni. Getty/Brittany Murray

Lögreglan í Monterey hefur nú lokið umsátursaðgerðum vegna leitar að manninum sem skaut tíu manns til bana á skemmtistað í bænum í nótt. Lögreglan vestanhafs hefur ekki viljað gefa út hvort meintur árásarmaður hafi verið í bílnum eða ekki.

Karlmaður skaut að minnsta kosti tíu manns til bana og særði tíu til viðbótar í bænum Monterey Park í nótt. Þar var verið að fagna nýju tunglári og voru tugir þúsunda í bænum. Maðurinn náði að flýja af vettvangi en lögreglan hefur lítið viljað tjá sig um málið. Enn er ekki vitað hvert tilefni árásarinnar var. 

Í dag birti lögreglan mynd af manni sem talið er að sé árásarmaðurinn. Fólk var beðið um að gefa sig fram ef það vissi hver maðurinn væri. Tekið var fram á myndinni að maðurinn gæti verið vopnaður og hættulegur. 

Myndin sem lögreglan birti af meintum árásarmanni.

Í kvöld hafa fjölmiðlar erlendis greint frá umsátri lögreglunnar við hvítan sendiferðabíl sem talinn er tengjast árásinni. Sprengjusveit lögreglunnar var kölluð til þar sem talið var að mögulega væri sprengja inni í bílnum. Manneskja var inni í bílnum en lögreglan gat ekki sagt til um hvort um væri að ræða grunaðan árásarmann. 

BBC greindi frá því klukkan rúmlega níu í kvöld að umsátrinu væri lokið og að ökumaður bílsins væri líklegast látinn. Þó hefur ekki tekist að staðfesta andlát hans. 

Lögreglan er enn að störfum þar sem hvíti sendiferðabíllinn var og hefur nú leitað inni í öðrum hvítum sendiferðabíl. Enn er ekkert að frétta um hver líðan mannsins í fyrri bílnum er eða hvort hann sé í raun og veru árásarmaðurinn. 

Klippa: Myrti tíu og tíu slasaðir

Tengdar fréttir

Skaut tíu til bana og gengur enn laus

Maður skaut minnst tíu til bana og særði tíu til viðbótar í bæ skammt frá Los Angeles í Bandaríkjunum í nótt. Umfangsmikil hátíð stóð yfir í bænum Monterey Park vegna nýs tunglárs og voru tugir þúsunda manna í bænum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×