Erlent

Bíll Julian Sands er fundinn

Atli Ísleifsson skrifar
Hinn 65 ára Julian Sands er þekktur fyrir að hafa farið með hlutverk í vinsælum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum á borð við Smallville og A Room with a View.
Hinn 65 ára Julian Sands er þekktur fyrir að hafa farið með hlutverk í vinsælum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum á borð við Smallville og A Room with a View. AP

Búið er að finna bíl breska leikarans Julians Sands í San Gabriel-fjöllunum, norður af Los Angeles. Leikarinn hélt í fjallgöngu á Baldy Bowl-svæðinu í síðustu viku og hefur hans verið saknað síðan á föstudag.

Veður hefur verið slæmt á svæðinu síðustu daga sem hefur torveldað leit björgunaraðila. Enn er beðið eftir veður skáni til að hægt sé að senda út björgunarlið á jörðu niðri, en síðustu daga hefur meðal annars verið notast við dróna og þyrlu við leitina.

Hinn 65 ára Sands er þekktur fyrir að hafa farið með hlutverk í vinsælum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum á borð við The Killing Fields, A Room with a View, 24, Boxing Helena, Leaving Las Vegas og Smallville.

Talsmaður lögreglu í San Bernandino-sýslu segir að bíllinn hafi fundist á bílastæði og er gert ráð fyrir að Sands hafi svo haldið í göngu. Fjölskylda Sands hefur nú látið draga bílinn í burtu, að því er segir í frétt BBC. Lögreglu barst tilkynning um að Sands væri saknað um kvöldmatarleytið föstudaginn 13. janúar.

Sands hefur búið í Los Angeles frá árinu 2020 og lék síðast í dramamyndinni Benediction sem skartaði einnig þeim Jack Lowden og Peter Capaldi í helstu hlutverkum.

Sands fór með hlutverk blóðföður Súperman í Smallville-þáttunum og Vladimir Bierko í 24.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×