Fótbolti

Messi og Ronaldo skoruðu báðir í níu marka stjörnuleik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Cristiano Ronaldo og Lionel Messi háðu enn eina baráttuna í kvöld.
Cristiano Ronaldo og Lionel Messi háðu enn eina baráttuna í kvöld. Yasser Bakhsh/Getty Images

Cristiano Ronaldo og Lionel Messi mættust enn eina ferðina er stjörnuprýtt lið Paris Saint-Germain heimsótti sameinað stjörnulið Al-Hilal og Al-Nassr í vináttuleik í kvöld. Þessir tveir bestu knattspyrnumenn heims síðustu ára skorðu báðir í leiknum sem endaði með 5-4 sigri PSG.

Lionel Messi skoraði fyrsta mark leiksins fyrir PSG strax á þriðju mínútu áður en Ronaldo jafnaði metin af vítapunktinum rúmum hálftíma síðar.

Juan Bernat fékk svo að líta beint rautt spjald í liði PSG á 39. mínútu, en manni færri tóku gestirnir þó forystuna á ný þegar Marquinhos skoraði eftir stoðsendingu frá Kylian Mbappé.

Neymar fékk svo tækifæri til að tvöfalda forystu PSG af vítapunktinum í uppbótartíma fyrri hálfleiks, en klikkaði á spyrnunni og Ronaldo skoraði annað mark sitt og jafnaði metin áður en uppbótartíminn kláraðist.

Sergio Ramo kom PSG í forystu í þriðja skiptið í leiknum með marki á 53. mínútu áður en Jang Hyun-Soo jafnaði metin í enn eina ferðina þremur mínútum síðar.

Kylian Mbappé skoraði svo fjórða mark PSG á 60. mínútu úr þriðju vítaspyrnu leiksins áður en Hugo Ekitike gerði endanlega út um leikinn með marki á 78. mínútu.

Anderson Talisca klóraði þó í bakkann fyrir sameinað lið Al-Hilal og Al-Nassr í uppbótartíma og þar við sat. Lokatölur 5-4, PSG í vil, í leik þar sem áhorfendur fengu nóg fyrir peninginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×