Enski boltinn

BBC biðst afsökunar á klámhrekknum

Sindri Sverrisson skrifar
Gary Lineker átti erfitt með að skella ekki upp úr þegar klámhljóðin byrjuðu að heyrast.
Gary Lineker átti erfitt með að skella ekki upp úr þegar klámhljóðin byrjuðu að heyrast. Getty/Simon Stacpoole

Áhorfendum í Bretlandi brá sjálfsagt í brún í gærkvöld þegar háværar stunur heyrðust á meðan að Gary Lineker og félagar ræddu í beinni útsendingu um bikarleik Liverpool og Wolves sem var þá að hefjast.

BBC hefur beðið þá áhorfendur sem að móðguðust afsökunar og ætlar að komast að því hvað varð til þess að klámhljóð heyrðust í beinni útsendingu.

Lineker, sem stýrði umfjöllun fyrir leik, birti mynd á Twitter-síðu sinni og greindi frá því að hljóðin hefðu komið frá síma sem falinn hafði verið í stúdíóinu. 

YouTube-hrekkjalómurinn Daniel Jarvis sagðist svo eiga heiðurinn af hrekknum og birti myndband sem virtist sýna hann í stúdíóinu á Molineux-vellinum þar sem leikurinn fór fram.

Lineker átti í vandræðum með að halda andliti á meðan að hljóðin heyrðust og sagði við Alan Shearer: „Einhver er að senda eitthvað á síma einhvers, held ég. Ég veit ekki hvort að þið sem heima sitjið hafið heyrt þetta.“ Þeir félagar reyndu svo að tala saman um leikinn en háværar stunur gerðu þeim erfitt fyrir.

Liverpool vann leikinn 1-0 með glæsimarki Harvey Elliott sem kom í fyrri háfleik. Þegar sérfræðingar BBC ræddu saman í hálfleik grínaðist Lineker og sagði:

„Markið hans Harvey Elliott var algjört öskur [e. screamer] en ekki það eina sem við höfum heyrt í kvöld.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×