Innlent

Vilja koma á fót sér­stakri „bráða­fjar­heil­brigðis­mið­stöð“

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur þegar ráðstafað 330 milljónum króna til að bæta tækjabúnað vegna bráðaþjónustu á heilbrigðisstofnunum.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur þegar ráðstafað 330 milljónum króna til að bæta tækjabúnað vegna bráðaþjónustu á heilbrigðisstofnunum. Vísir/Vilhelm

Viðbragðsteymi á vegum heilbrigðisráðherra hefur lagt fram 39 tillögur að umbótum þegar kemur að bráðaþjónustu en tillögurnar voru kynntar á ríkisstjórnarfundi í dag. Í megindráttum snúa tillögurnar meðal annars að því að efla og samræma bráðaþjónustu um allt land og auka samvinnu milli stofnana.

„Þetta eru skýrar og vel rökstuddar tillögur um markvissar aðgerðir til að efla og bæta bráðaþjónustu um allt land. Þannig aukum við öryggi sjúklinga, styðjum markmiðið um að veita rétta þjónustu á réttum stað og jöfnum álag á stofnanir heilbrigðiskerfisins“ segir er haft eftir heilbrigðisráðherra í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.

Tillagan sem talin er líkleg til að hafa mest áhrif felur í sér að komið verði á þjónustu fjarskiptalæknis. Viðbótarkostnaður vegna rekstrar yrði 220 milljónir króna á ári þegar sólarhringsþjónustu yrði komið á en um 100 milljónir króna fyrsta árið. Þá er lagt til að stofnuð verði bráðafjarheilbrigðismiðstöð til að styðja viðbragðsaðila sem sinna bráðaþjónustu um land allt.

Lagt er til að miðstöðin sinni læknisfræðilegri stjórnun og ráðgjöf fyrir sjúkraflutninga, bráðalæknisráðgjöf fyrir heilsugæslu í dreifbýli, fjarheilbrigðisþjónustu fyrir sjófarendur, vettvangsliða og björgunarsveitir, auk faglegrar ráðgjafar við Neyðarlínu, meðal annars til ákvörðunar um notkun sjúkraflugs og þyrlu.

Heilbrigðisráðherra hefur þegar ráðstafað um 330 milljónum króna til að bæta tækjabúnað vegna bráðaþjónustu á heilbrigðisstofnunum og heilsugæslustöðvum um allt land. Ákvörðun heilbrigðisráðherra byggir á tillögum viðbragðsteymis og einnig er hafin vinna starfshóps um vegvísun í heilbrigðisþjónustu, sem ráðherra skipaði að tillögu teymisins. 

Hér er hægt að lesa ýtarlega skýrslu viðbragðsteymisins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×