Lífið

Idol keppandi á von á barni

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Idol keppandinn Saga Matthildur á von á barni.
Idol keppandinn Saga Matthildur á von á barni. Stöð 2

Idol keppandinn Saga Matthildur Árnadóttir á von á sínu fyrsta barni með kærasta sínum Sigurði Reyni Rúnarssyni. Þessu greindi Saga frá á Instagram á nýársdag.

„Fréttir frá árinu: Ég og Sigurður bjuggum til fóstur,“ skrifar Saga Matthildur undir mynd af parinu með sónarmynd.

Hin 24 ára gamla Saga Matthildur hefur slegið rækilega í gegn í Idol og er hún ein þeirra sem komin er í átta manna úrslit. Hún er komin 23 vikur á leið og var tiltölulega nýbúin að komast að óléttunni þegar millistig keppninnar fór fram í Salnum í Kópavogi.

„Þetta hefur ekki haft mikil áhrif á mig líkamlega, ég er búin að vera ótrúlega heppin. En ég var mögulega tilfinningaríkari en ég hefði venjulega verið. Ég var hætt að passa í buxurnar mínar og þurfti að breyta um outfit á síðustu stundu. Þannig það var svona alls konar auka stress,“ segir Saga Matthildur í samtali við Vísi.

Þarf að beita sér öðruvísi

Saga segist ekki hafa áhyggjur af því að meðgangan hafi áhrif á frammistöðu sína í keppninni en hún hafi vissulega þurft að læra að beita sér öðruvísi.

„Það er ákveðin áskorun en ég er þá bara á móti að læra nýja tækni sem ég get nýtt mér seinna.“

Saga Matthildur heillaði dómara í fyrstu prufunum með sinni eigin útfærslu af laginu Miss You með hljómsveitinni Blink182. Idol dómarinn Herra Hnetusmjör sagði meðal annars að hann sæi hana selja upp Gamla Bíó á hálftíma.

„Ég held að þetta verði sjúkt“

Á föstudaginn fer fram fyrsti þáttur í beinni útsendingu úr Idol höllinni í Gufunesi. Eftir standa átta keppendur; Saga Matthildur, Kjalar, Þórhildur, Guðjón Smári, Birgir Örn, Ninja, Bia og Símon Grétar.

„Ég er búin að vera svolítið stressuð en með æfingunum er ég farin að detta í það að verða helvíti spennt. Ég held að þetta verði sjúkt,“ segir Saga Matthildur sem segir að áhorfendur muni fá að sjá nýja hlið á henni á föstudaginn.

„Þetta er ólíkt því sem ég hef gert hingað til. Ég ætla að breyta aðeins til.“


Tengdar fréttir


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.