Innlent

Vil­hjálmur Freyr steig fram á Omega: „Ég var ein­mana þetta kvöld“

Árni Sæberg skrifar
Vilhjálmur Freyr hlaut fjögurra ára fangelsisdóm fyrir margvíslegt ofbeldi.
Vilhjálmur Freyr hlaut fjögurra ára fangelsisdóm fyrir margvíslegt ofbeldi. Skjáskot/Omega

Vilhjálmur Freyr Björnsson, maðurinn sem var í desember dæmdur fyrir margvísleg brot gegn konu sem hann hafði greitt fyrir vændi, var til viðtals á kristilegu sjónvarpsstöðinni Omega í apríl síðastliðnum. Hann kveðst hafa verið einmana umrætt kvöld og búinn að drekka þrjá sprittbrúsa þegar hann braut á konunni.

Í gær var greint frá því að Vilhjálmur Freyr væri maðurinn sem dæmdur var í fjögurra ára fangelsi fyrir nauðgun, kaup á vændi, sérlega hættulega líkamsárás og frelsissviptingu í kjallara húss í Reykjavík í apríl í fyrra.

Upphaflega var nafn hans afmáð þegar dómurinn var birtur á vef héraðsdómstólanna en sú ákvörðun sætti mikilli gagnrýni enda hlaut Vilhjálmur Freyr þungan dóm fyrir alvarlegt ofbeldisbrot og hefur enga tengingu við fórnarlamb sitt.

Í sama mánuði og hann framdi umrætt brot veitti hann viðtal í þættinum Dýrðar Frelsi Guðs: Hefur Guð bjargað þér? á sjónvarpsstöðinni Omega.

„Við erum með góðan gest í kvöld, maður sem hefur svolítið farið út af brautinni en komið inn á hana aftur, en svo farið út af henni og inn á hana aftur. Þetta er búið að vera svolítið ströggl hjá honum. Maður hefur verið að fylgjast með honum og stundum hefut maður brosað yfir því hve vel gengur hjá honum, en svo er hann dottinn út af brautinni aftur,“ segir þáttastjórnandinn Magnús Sigurðsson í upphafi þáttar.

Ræddi æskuna og neysluna

Magnús byrjar þáttinn á því að spyrja Vilhjálm Frey út í uppvaxtarár hans. Vilhjálmur Freyr kveðst vera fæddur og uppalinn á Akranesi á ástríku heimili með foreldrum sínum og fjórum systkinum.

Hann segir það hafa verið gott að alast upp á Akranesi á tíunda áratugnum, þegar enginn læsti heimili sínu og engir glæpir voru framdir. 

Hann segir þó að fljótlega hafi farið að halla undan fæti hjá honum og hann farið að fremja smáglæpi þegar hann var unglingur. Snemma hafi hann svo leiðst í neyslu áfengis og annarra vímuefna.

Leigði kjallaraíbúðina af systur sinni

Vilhjálmur Freyr segist hafa farið í sex mánaða meðferð í Svíþjóð eftir að hann hafði verið farinn að neyta harðra fíkniefna um æð. Þegar heim var komið úr meðferðinni hafi hann leigt herbergi af systur sinni í kjallaranum í Breiðholti, þar sem hann framdi brotin, á meðan verið væri að standsetja íbúð fjölskyldu hans. Vilhjálmur Freyr á eiginkonu og tvö börn.

„Ég var einmana þetta kvöld, ég man eftir því, og Covid var þarna nýbyrjað. Ég fer út í Iceland þarna í Breiðholtinu og ég kaupi mér þrjá sprittbrúsa og ég drekk þá. Og það kvöld, þá framdi ég ljótasta hlut sem ég hef gert. Ég beitti ofbeldi sem varð til þess að ég varð síðan handtekinn,“ segir Vilhjálmur Freyr en ræðir ofbeldið ekkert frekar.

Hann segist þá hafa ákveðið að hefja kannabisreykingar í stað þess að neyta annarra vímuefna. „Af því að ég vissi að þá væri ég ekki að gera þessa skandala,“ segir hann.

Viðtalið við Vilhjálm Frey má sjá í heild sinni hér að neðan:


Tengdar fréttir

Nafn­greindi manninn sem hélt vændi­skonu og nauðgaði

Héraðsdómur Reykjavíkur birti nafn manns sem var dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir að nauðga vændiskonu og halda henni í gíslingu í dag. Nafn mannsins var upphaflega afmáð úr dómnum en dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að rétt væri að birta það samkvæmt reglum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×