Innlent

„Það má ekkert við miklu þegar kerfið er þanið“

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Sóttvarnalæknir segir óljóst hvert ástandið sé í Kína þegar kemur að faraldrinum.
Sóttvarnalæknir segir óljóst hvert ástandið sé í Kína þegar kemur að faraldrinum. Stöð 2/Arnar Halldórsson

Sóttvarnalæknir segir skimanir á landamærum og raðgreiningu vera til skoðunar vegna tilslakana í Kína. Hún segir heilbrigðiskerfin í Evrópu nú undir miklu álagi og ekki mega við miklu meira.

Frá og með næsta sunnudegi þurfa Kínverjar ekki lengur að fara í sóttkví við heimkomuna eftir ferðalög til annarra landa. Margir þar í landi fanga þessu enda hafa þeir búið í um þrjú ár við mjög harðar sóttvarnaraðgerðir. Búist er við að margir muni nýta sér þetta og ferðast. Sóttvarnalæknir fundað í dag með starfssystkinum sínum í Evrópu þar sem farið var yfir stöðuna.

„Hvort það þurfi eða sé ástæða til að grípa til einhverra aðgerða vegna væntanlegra ferðalaga frá Kína og þetta er sem sagt umræða þá í Evrópusambandinu og löndum Evrópska efnahagssvæðisins. Það er það sem helst er verið að skoða eru auknar skimanir og raðgreining til þess að vera í stakk búin til að greina nýtt afbrigði ef það kemur upp,“ segir Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir.

Hún segir óljóst þegar kemur að faraldrinum hvert ástandið sé nákvæmlega í Kína.

„Það eru minni upplýsingar sem að koma þaðan um fjölda smita, um innlagnir, veikindi að þá eru áhyggjur af því að ástandið þar sé ekki gott og að þetta gæti hugsanlega haft áhrif inn í Evrópu. En það er ekki alveg ljóst endilega og þá eru sumir sem hafa áhyggjur af nýjum afbrigðum líka sem gætu komið frá Kína þó auðvitað gætu þau líka komið annars staðar frá.“

Þá séu einnig áhyggjur af því að auknum ferðalögum Kínverja fylgi meiri veikindi þeirra sjálfra ef þeir eru ekki vel bólusettir. Endanleg ákvörðun um hvort gripið verði til aðgerða liggur væntanlega fyrir fyrir helgina.

„Heilbrigðiskerfin núna í Evrópu á mörgum stöðum, þar með talið hjá okkur, eru undir miklu álagi út af öndunarfærasýkingum þannig að þetta er ekki góður tími til þess að auka á það. Það má ekkert við miklu þegar kerfið er þanið.“

Stjórnvöld í Kína mótmæltu í dag takmörkunum á landamærum sem kínverskir ferðamenn munu víða mæta. Lönd á borð við Spán, Ítalíu, Bandaríkin og Bretland hyggjast annað hvort prófa fólk við komu til landsins eða fara fram á neikvætt covid-vottorð.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×