Fótbolti

Ronaldo segir að mörg topp félög hafi reynt að krækja í sig

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Cristiano Ronaldo mætti á sinn fyrsta blaðamannafund hjá Al Nassr í dag.
Cristiano Ronaldo mætti á sinn fyrsta blaðamannafund hjá Al Nassr í dag. Khalid Alhaj/MB Media/Getty Images

Portúgalska stórstjarnan Cristiano Ronaldo segist hafa fengið boð um að ganga til liðs við mörg af topp félögum Evrópu áður en hann ákvað að semja loks við Al Nassr í Sádí-Arabíu.

Ronaldo gekk í raðir Al Nassr síðastliðinn föstudag á frjálsri sölu eftir að samningi hans við Manchester United var rift. Ronaldo er sagður hafa komist að sameiginlegri niðurstöðu við United um að rifta samningnum í kjölfar þess að leikmaðurinn fór í umdeilt viðtal við þáttastjórnandann Piers Morgan.

Þessi 37 ára gamli leikmaður segir að áður en hann ákvað að ganga til liðs við Al Nassr hafi hin ýmsu félög frá Evrópu, Brasilíu, Ástralíu og Bandaríkjunum haft samband til að reyna að krækja í sig.

„Verki mínu í Evrópu er lokið,“ sagði Ronaldo á sínum fyrsta blaðamannafundi hjá nýja félaginu. 

„Ég er búinn að vinna allt og hef spilað fyrir stærstu klúbba Evrópu. Nú er kominn tími á nýja áskorun í Asíu.“

„Það veit enginn af því, en ég get sagt frá því núna að ég fékk mörg boð frá félögum í Evrópu, Brasilíu, Ástralíu, Bandaríkjunum og meira að segja í Portúgal. Það voru mörg félög sem reyndu að fá mig,“ bætti Ronaldo við. 

„En ég gaf þessu liði loforð og fæ nú tækifæri til að þróafótboltann í þessu frábæra landi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×