Manchester United hefur nú unnið fjóra leiki í röð í ensku úrvalsdeildinni eftir að liðið vann öruggan 3-0 sigur gegn Bournemouth í kvöld.
Það var Brasilíumaðurinn Casemiro sem kom liðinu yfir á 23. mínútu leiksins eftir stoðsendingu frá Christian Eriksen, en það reyndist eina mark fyrri hálfleiksins og staðan því 1-0 þegar gengið var til búningsherbergja.
Luke Shaw tvöfaldaði svo forystu heimamanna snemma í síðari hálfleik eftir stoðsendingu frá varamanninum Alejandro Garnacho áður en Marcus Rashford gulltryggði sigur United með marki á 86. mínútu.
Niðurstaðan því 3-0 sigur heimamanna og Manchester United situr nú í fjórða sæti deildarinnar með 35 stig eftir 17 leiki, níu stigum á eftir toppliði Arsenal. Bournemouth situr hins vegar í 15. sæti með 16 stig.