Erlent

„Ég vildi fjölskylduna, ekki stofnunina“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Spare kemur út 10. janúar næstkomandi.
Spare kemur út 10. janúar næstkomandi.

„Ég vil fá föður minn aftur, ég vil fá bróður minn aftur,“ segir Harry Bretaprins í viðtali við ITV sem verður birt 8. janúar næstkomandi, tveimur dögum fyrir útgáfu bókarinnar Spare.

Harry ræddi við ITV í Bretlandi og CBS í Bandaríkjunum í tengslum við útgáfu bókarinnar en í gær birtust stiklur úr báðum viðtölum. Í stiklunni fyrir ITV-viðtalið segir Harry að „þeir“ hafi ekki sýnt neinn vilja til sátta en það kemur ekki skýrt fram hverjir „þeir“ eru; hvort það eru faðir hans og bróðir.

Í stiklunni fyrir CBS-viðtalið segist Harry hafa verið svikinn en umrædd svik fólust að hans sögn meðal annars í upplýsingaleka konungshallarinnar til fjölmiðla, þar sem ófögrum sögum um hann og eiginkonu hans Meghan Markle var „komið fyrir“ í fjölmiðlum.

Harry hefur áður tjáð sig um óheiðarlegar aðferðir starfsmanna konungshallarinnar, sem hann segir njóta samþykkis konungsfjölskyldunnar. Mottó fjölskyldunnar, „aldrei kvarta, aldrei útskýra“, sé einmitt það; bara mottó. Raunveruleikinn sé sá að fjölskyldan nýti sér fjölmiðla til að hafa áhrif á umræðuna um sig.

Í viðtalinu við CBS segir Harry að heilu umfjallanir fjölmiðla séu í raun komnar beint frá Buckingham-höll og því hafi hann upplifað það sem svik þegar konungsfjölskyldan sagðist ekkert geta gert til þess að vernda hann og Meghan.

Þá segist hann ekki sjá fyrir sér að snúa aftur í opinbert hlutverk fyrir fjölskylduna.

„Ég vildi fjölskylduna, ekki stofnunina,“ segir Harry í viðtalinu við ITV.

Útgefandi Spare segir bókina einlæga frásögn Harry af uppvaxtarárum sínum og reynslu sinni innan konungsfjölskyldunnar. Hennar er beðið með mikilli eftirvæntingu en hún mun einnig koma út sem hljóðbók, lesin af prinsinum sjálfum.

Menn velta því nú fyrir sér hvort ofangreind viðtöl muni leiða eitthvað nýtt í ljós, þar sem þau voru tekin af virtum blaðamönnum; Anderson Cooper fyrir CBS og Tom Bradby fyrir ITV. Mörgum þóttu Oprah Winfrey og Netflix fara afar mjúkum höndum um Harry og Meghan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×