Erlent

Réðust á fangelsi og hjápuðu tugum að sleppa

Kjartan Kjartansson skrifar
Þjóðvarðliðar og hermenn standa vörð fyrir utan ríkisfangelsið í Juarez-borg sem ráðist var á að morgni nýársdags.
Þjóðvarðliðar og hermenn standa vörð fyrir utan ríkisfangelsið í Juarez-borg sem ráðist var á að morgni nýársdags. AP/Christian Chavez

Tugir fanga komust undan og fjórtán manns féllu þegar vopnaðir menn í brynvörðum bílum hófu skothríð á fangelsi í norðanverðu Mexíkó á nýársdag. Árásarmennirnir eru taldir félagar í eiturlyfjagengi.

Lögregla í Juarez-borg í Chihuahua við landamærin að Bandaríkjunum segir að 24 fangar hafi sloppið í árásinni sem hófst klukkan sjö að staðartíma í gærmorgun. Árásarmennirnir skutu á fangaverði. Tíu þeirra féllu auk fjögurra fanga, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Sjónarvottur segir að árásarmennirnir hafi verið svartklæddir og betur vopnaðir en fangaverðirnir. Þeir hafi ekki aðeins skotið á verðina heldur einnig öll farartæki sem áttu leið hjá.

Átök brutust út innan veggja fangelsisins sem hýsir félagar ólíkra glæpagengja. Þrettán manns særðust í þeim skærum og voru fjórir fluttir á sjúkrahús.

AP-fréttastofan segir að skömmu fyrir árásina hafi verið ráðist á lögreglumenn í borginni. Fjórir menn voru handteknir eftir að lögregla veitti þeim eftirför. Síðar felldu lögreglumenn tvo meinta byssumenn í pallbíl.

Herinn og þjóðvarðliðið var kallað út til að aðstoða ríkisyfirvöld í kjölfar árásarinnar. Saksóknarar segjast ætla að rannsaka flóttann og árásina. Ellefu manns létust í óeirðum í sama fangelsi sem bárust út á nærliggjandi götur í ágúst.

Juarez-borg hefur verið í greipum glæpgengja sem eiga í blóðugum átökum sín á milli. Þúsundir manna hafa fallið í stríði Sinaloa- og Juarez-glæpagengjanna á undanförnum tíu árum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×