Enski boltinn

Enginn sérfræðinga Sky Sports trúir því að Arsenal klári titilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brasilíumaðurinn Gabriel Martinelli fagnar marki sínu í sigri Arsenal á Brighton & Hove Albion um helgina.
Brasilíumaðurinn Gabriel Martinelli fagnar marki sínu í sigri Arsenal á Brighton & Hove Albion um helgina. AP/Alastair Grant

Þrír sérfræðingar Sky Sports spáðu fyrir um ensku meistarana og fjögur efstu sætin í ensku úrvalsdeildinni í vor.

Þeir Graeme Souness, Jimmy Floyd Hasselbaink og Jamie Redknapp starfa sem knattspyrnusérfræðingar hjá Sky Sports sjónvarpsstöðinni og þeir fengu það verkefni að spá fyrir um Meistaradeildarsætin og meistarana í lok núverandi tímabils.

Arsenal er með sjö stiga forystu á Manchester City eftir leiki helgarinnar en enginn sérfræðinganna þriggja trúir því samt að Arsenal menn haldi þetta út og vinni titilinn í vor.

Allir þrír spá nefnilega að Manchester City verði Englandsmeistari þriðja árið í röð. Arsenal verður í öðru sæti hjá þeim öllum.

Liverpool, sem er núna í sjötta sæti, nær líka Meistaradeildarsæti hjá þeim öllum, þar af þriðja sætið hjá báðum gömlu Liverpool miðjumönnunum Souness og Redknapp.

Manchester United nær ekki Meistaradeildarsæti samkvæmt spá Souness en hinir tveir eru með United á topp fjögur á kostnað Tottenham. Hér fyrir ofan má sjá þessa spá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×