Fótbolti

Stuðningsmaður arfleiddi Blika að 200 milljónum króna

Smári Jökull Jónsson skrifar
Breiðablik varð Íslandsmeistari í karlaflokki í sumar.
Breiðablik varð Íslandsmeistari í karlaflokki í sumar. Vísir/Hulda Margrét

Stuðningsmaður Breiðabliks arfleiddi knattspyrnudeild félagsins að nærri 200 milljónum króna á árinu. Félagið gerir ekki ráð fyrir að nýta peninginn í beinan rekstur deildarinnar.

Guðmundur Eggert Óskarsson féll frá í febrúar á nýliðnu ári en hann var mikill stuðningsmaður Breiðabliks. Hann bjó alla sína ævi í Kópavogi og var virkur í félagsmálum í bæjarfélaginu. Hann var meðal annars gjaldkeri í knattspyrnudeild Breiðabliks og var gerður að heiðursfélaga Breiðabliks árið 1990.

Í erfðaskrá Guðmundar kemur fram að rétt um 200 milljónir eigi að renna til knattspyrnudeildar Breiðabliks og er sérstaklega tekið fram að fjárhæðin eigi að skiptast jafnt á milli karla- og kvennadeildar.

„Þessi rausnarlega gjöf mun nýtast deildinni til að efla starf knattspyrnudeildar, en ekki er gert ráð fyrir að fjármunirnir verði nýttir í beinan rekstur, heldur til einstakra verkefna og framþróunar á starfi knattspyrnudeildar Breiðabliks,“ segir í tilkynningu á Facebooksíðu deildarinnar.

Karlalið Breiðabliks varð Íslandsmeistari í sumar með töluverðum yfirburðum en kvennaliðið hafnaði í þriðja sæti Bestu deildarinnar, tíu stigum á eftir Íslandsmeisturum Vals.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×