Fótbolti

Dani Al­ves sakaður um kyn­ferðis­lega á­reitni á nætur­klúbbi í Barcelona

Smári Jökull Jónsson skrifar
Dani Alves var í landsliðshópi Brasilíu á heimsmeistaramótinu í Katar.
Dani Alves var í landsliðshópi Brasilíu á heimsmeistaramótinu í Katar. Vísir/Getty

Lögreglan í Barcelona hefur hafið rannsókn vegna ásakana þrítugrar konu á hendur Dani Alves. Konan sakar hann um að hafa áreitt sig kynferðislega á næturklúbbi í Barcelona.

Atvikið á að hafa átt sér stað á næturklúbbnum Sutton í Barcelona en það er spænska blaðið ABC sem greinir frá málinu. Dani Alves lék með Barcelona frá 2008 allt til ársins 2016 og gekk síðan aftur til liðs við félagið í nóvember árið 2021. 

Hann er nú í fríi í sinni gömlu heimaborg eftir að hafa verið með brasilíska landsliðinu á heimsmeistaramótinu í Katar.

Samkvæmt frásögn konunnar á Alves að hafa farið með hendur sínar inn undir nærföt hennar. Hún sagði vinum sínum frá atvikinu sem létu öryggisverði vita og í kjölfarið var lögreglan kölluð til. Þegar lögreglan kom á næturklúbbinn til að yfirheyra konuna hafði Alves þegar yfirgefið svæðið.

Lögreglan hefur nú hafið rannsókn á málinu. ABC hafði samband við aðila tengda Alves sem segja að hann neiti að hafa áreitt konuna. Þau segja að Alves hafi verið í sama herbergi og konan í stutta stund en að ekkert hafi gerst.

Alves er nú leikmaður mexíkanska félagsins Pumas. Hann yfirgaf Barcelona í júní eftir að hafa gengið til liðs við félagið á ný í nóvember árið áður. Auk Barcelona hefur hann leikið með Juventus og PSG á sínum ferli og er sá leikmaður í knattspyrnusögunni sem hefur unnið flesta titla á sínum ferli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×