Erlent

Kötturinn þinn skilur þig ekki! Og þú ekki hann!

Jóhann Hlíðar Harðarson skrifar
Þessi köttur virðist hissa á þessu öllu saman.
Þessi köttur virðist hissa á þessu öllu saman. Getty Images

Kettir gera skýran greinarmun á því hvort eigandi þeirra er að tala við þá eða annað fólk. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar. Og þeir mjálma eiginlega aldrei nema þegar þeir eru að svara fólki sem talar við þá. Nýhafið ár er ár kattarins í Víetnam.

Við þekkjum þetta öll. Kattafólkið segir okkur hvað kötturinn vill út frá nokkrum hjáróma mjálmum. Það eru hins vegar meiri líkur en minni á því að kattafólkið hafi ekki hugmynd um hvað kötturinn vill.

Mjálmar nær eingöngu til að eiga samskipti við fólk

Í rannsókn sem háskólinn í Mílanó á Ítalíu stóð fyrir var kannað hversu vel fólk gæti borið kennsl á hvað kettir vildu út frá mjálmi; spilaðar voru upptökur þar sem svangur köttur bíður eftir mat, þar sem manneskja lætur vel að ketti og þar sem köttur er hræddur í óþekktu umhverfi. Þátttakendum gekk heilt yfir mjög illa að greina á milli mjálmanna, og gilti þá einu hvort í hlut áttu kattaeigendur eða ekki.

Mjálmið er reyndar nokkuð sem kötturinn notar eiginlega eingöngu í samskiptum við mannfólkið. Hann notar það í undantekningatilfellum við sína eigin líka, aðallega þegar hann er að leita maka eða merkja sér svæði. Talið er að þetta sé aðferð hans til að svara mannfólkinu þegar hann sér fólk beina tali sínu að sér, án þess að hann viti endilega hvað verið sé að segja við hann. Niðurstöður nýlegrar rannsóknar sem birt var á vísindavefnum Springer sýna að kettir gera sér grein fyrir því hvort verið sé að tala við þá eða við aðra manneskju. En bara þegar eigandinn talar. Ef einhver annar en eigandi þeirra talar í návist þeirra hafa þeir ekki hugmynd um hvort verið sé að tala við þá.

Kötturinn ræður yfir ótrúlega mörgum hljóðum

Annars er mjálm bara eitt af mörgum hljóðum sem kötturinn gefur frá sér. Engin kjötæta gefur frá sér eins fjölbreytt hljóð en talið er að kötturinn ráði yfir meira en 20 mismunandi hljóðum.

Önnur rannsókn leiddi greinilega í ljós að kettir finna samstundis á sér hvort manneskja er kattavinur eður ei. Sé óvildarmaður katta í nágrenninu forðar kötturinn sér hið snarasta. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×