Fótbolti

„Hann er betri en Mbappé og Haaland“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Julián Álvarez var afar öflugur á HM en hefur færri tækifæri fengið með félagi heldur en landsliði.
Julián Álvarez var afar öflugur á HM en hefur færri tækifæri fengið með félagi heldur en landsliði. Maja Hitij - FIFA/FIFA via Getty Images

Iván Zamorano, fyrrum framherji Inter Milan og Real Madrid, segir ungstirni Manchester City, Julián Álvarez, hafa upp á meira að bjóða en tveir bestu framherjar heims.

Hinn síleski Zamorano raðaði inn mörkum með Real Madrid um miðjan tíunda áratug síðustu aldar og lék svo lengi vel með Inter á Ítalíu hvar honum gekk öllu verr að finna netmöskvana.

Hann ræddi heimsmeistaramótið við argentínska miðilinn Olé eftir að hafa tekið þátt í heiðursleik fyrir fyrrum liðsfélaga hans hjá Inter, Javier Zanetti. Þar bar Álvarez á góma, en hann var feiknasterkur er Argentína fagnaði sigri á mótinu.

„Hann er klassískur framherji, en fáir slíkir eru eftir. Fyrir mér, í nútímafótbolta, er Julián heilsteyptasti framherji heims,“ segir Zamorano.

Zamorano var hörkuframherji á sínum tíma. Hér berst hann við Peter Schmeichel á tíunda áratugnum.Getty

„Ef við skoðum aðra framherja og lítum yfir alla sóknarlínuna, þá er hann sá heilsteyptasti þar sem Haaland gerir ekki vel á köntunum, við höfum séð Mbappé í níunni þar sem hann leggur ekki margt að borðinu,“

„En Julián gerir allt það. Fyrst og fremst er hann svo með risa hjarta sem gerir hann enn betri,“ segir Zamorano.

Álvarez raðaði inn mörkum með River Plate í heimalandinu en gekk í raðir Manchester City í sumar eftir að hafa verið keyptur í janúar síðastliðnum. Hann hefur spilað tólf deildarleiki með liðinu í vetur, fæsta í byrjunarliði, og skorað þrjú mörk.

Hann skoraði fjögur mörk á nýliðnu heimsmeistaramóti, þar á meðal tvö í 3-0 sigri á Króötum í undanúrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×