Fótbolti

Brassar séu búnir að ræða við Mourinho um að taka við landsliðinu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gæti Jose Mourinho verið næsti þjálfari brasilíska landsliðsins?
Gæti Jose Mourinho verið næsti þjálfari brasilíska landsliðsins? Hiroki Watanabe/Getty Images

Brasilíska knattspyrnusambandið vill fá portúgalska knattspyrnustjórann José Mourinho til að taka við landsliðinu eftir að Tite lét af störfum í lok heimsmeistaramótsins í Katar.

Frá þessu er greint á vef Daily Mail, en þar kemur einnig fram að Brassar hafi nú þegar hafið viðræður við þjálfarann eftir að Carlo Ancelotti, þjálfari Real Madrid, hafnaði starfinu.

Brasilía þótti sigurstranglegasta þjóðin á HM í Katar en féll úr leik eftir vítaspyrnukeppni gegn Króatíu í átta liða úrslitum. Þjálfari liðsins, Tite, sagði starfi sínu svo lausu nokkrum klukkustundum eftir leikinn, en hann hafi gefið það út fyrr á árinu að hann ætlaði sér að hætta sama hver árangurinn yrði. Tite hafði þá stýrt liðinu í sex ár.

Eftir brotthvarf Tite er þjálfarastaðan hjá sigursælustu knattspyrnuþjóð heims því laus og af þeim þjálfurum sem eru starfandi í dag eru fáir jafn sigursælir og José Mourinho. Á brasilíska vefnum La Repubblica er greint frá því að brasilíska knattspyrnusambandið hafi nú þegar hafið viðræður við Jorge Mendez, umboðsmann Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×