Erlent

WHO skortir gögn frá Kína þar sem biðraðir myndast við líkbrennslur

Samúel Karl Ólason skrifar
Lík flutt til brennslu í Hebei-héraði í Kína í morgun.
Lík flutt til brennslu í Hebei-héraði í Kína í morgun. AP

Opinberar tölur yfirvalda í Kína yfir fjölda þeirra sem látist hafa vegna Covid eru líklega ekki í takt við raunveruleikann. Þetta segja forsvarsmenn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) en sérfræðingar segja mögulegt að fjölmargir muni deyja vegna faraldursins þar á árinu.

Mike Ryan, einn af yfirmönnum WHO, sagði á blaðamannafundi í gær að samkvæmt opinberum tölum frá Kína væru tiltölulega fáir á gjörgæslum vegna Covid. Hins vegar væru fregnir að berast af öngþveiti á sjúkrahúsum víða um Kína.

Sérfræðingar segja mögulegt að skortur á gögnum frá Kína sé til marks um að kerfið þar ráði ekki við stöðuna.

WHO segir þörf á áreiðanlegri upplýsingum frá Kína svo hægt sé að meta stöðuna af meiri nákvæmni, samkvæmt Washington Post.

Undanfarin ár hafa ráðamenn í Kína haldið sig fast við harðar sóttvarnaraðgerðir sem ætlað hefur verið að stöðva alla dreifingu veirunnar. Þessar aðgerðir og tiltölulega lítil bólusetning hefur leitt til þess að stór hluti kínverska samfélagsins er með lítil mótefni gegn Covid og á það sérstaklega við eldri Kínverja.

Einhverjir sérfræðingar hafa spáð því að á þessu ári gætu rúm milljón Kínverja dáið vegna Covid. Kínverjar eru um 1,4 milljarðar talsins.

Í gær héldu yfirvöld í Kína því fram að í heildina hefðu 5.241 dáið vegna Covid en degi áður var talan 5.242 og var munurinn ekki útskýrður. Þetta þykir ekki trúverðug tala og þar á meðal á samfélagsmiðlum í Kína.

Reuters sagði frá því í gær að álag á líkbrennslum í Peking hafi aukist til muna á undanförnum dögum og að biðlistar hafi myndast. Fólk þurfi jafnvel að bíða í nokkra daga eftir því að geta brennt ættingja sína. Blaðamenn Reuters sáu fólk í hlífðarfatnaði bera lík inn í eina líkbrennslu en þar voru einnig öryggisverðir og löng biðröð líkbíla.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×