Erlent

Unglingsstúlkur sem stungu mann fyrir áfengisflösku til rannsóknar vegna fleiri árása

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar að störfum í Toronto. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Lögregluþjónar að störfum í Toronto. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Getty/Steve Russell

Saksóknarar í Toronto í Kanada hafa ákært átta táningsstúlkur fyrir að stinga 59 ára gamlan mann til bana. Stúlkurnar eru þrettán til sextán ára gamlar og voru að reyna að ná áfengisflösku af vinkonu mannsins.

Í samtali við Ríkisútvarp Kanada (CBC) segir konan sem ráðist var á að hún og maðurinn hafi verið fyrir utan athvarf í miðbæ Toronto skömmu eftir miðnætti aðfaranótt sunnudags þegar stúlkurnar hafi gengið að þeim og reynt að taka af henni áfengisflösku.

Sjá einnig: Átta ung­lings­stúlkur á­kærðar fyrir morð á heimilis­lausum manni

Hún segir vin sinn hafa komið sér til aðstoðar en stúlkurnar hafi allar ráðist á hann og slegið hann ítrekað. Konan flúði en segist hafa séð mikið blóð þegar þær réðust á manninn. Konan hélt að stúlkurnar hefðu stungið manninn í kviðinn.

Hann var fluttur á sjúkrahús en lést skömmu síðar.

Stúlkurnar voru handteknar skömmu síðar, þegar lögregluþjónar voru kallaðir til út af öðru máli sem stúlkurnar komu að. Lögreglan segir að vopn hafi fundist á stúlkunum en hefur ekki sagt hvernig vopn né hve mörg.

Í frétt Toronto Star er haft eftir heimildarmönnum miðilsins úr lögreglunni að talið sé að stúlkurnar hafi tengst tveimur öðrum árásum þetta kvöld

Taldar hafa hist á samfélagsmiðlum

Þrjár stúlknanna eru þrettán ára gamlar, þrjár eru fjórtán ára og tvær eru sextán. Lögreglan telur þær hafa hist á samfélagsmiðlum og komið saman í miðbæ Toronto á laugardagskvöldið. Þær búa allar í sitthvorum hluta borgarinnar.

Ekki liggur fyrir hvað þær voru að gera í miðbænum en allar hafa verið ákærðar fyrir morð af annarri gráðu.

Einn af yfirmönnum lögreglunnar í Toronto, sem hefur rannsakað morð í nítján ár, segist aldrei hafa rannsakað glæp sem þennan. Lögreglan hefur biðlað til almennings um upplýsingar um málið.

John Tory, borgarstjóri, segir árásina ógnvænlega. Í yfirlýsingu sem CBC vitnar í segir borgarstjórinn að allir íbúar borgarinnar eigi skilið að komið sé fram við þá af virðingu. Það að maður hafi dáið á þennan hátt sé sorglegt.

Hann segir einnig að ungur aldur stúlknanna og eðli glæpsins sé mikið áhyggjuefni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×