Fótbolti

Karó­lína Lea sneri aftur | Guð­rún fékk á sig sex mörk í Kata­lóníu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Karólína Lea sneri til baka eftir erfið meiðsli í kvöld.
Karólína Lea sneri til baka eftir erfið meiðsli í kvöld. Daniel Kopatsch/Getty Images

Guðrún Arnardóttir stóð vaktina í vörn Rosengård þegar liðið tapaði 6-0 fyrir stórliði Barcelona í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Athygli vakti að enginn Íslendingur var í byrjunarliði Bayern München í 2-0 sigri á Benfica en Karólína Lea Vilhjálmsdóttir kom inn af bekknum undir lok leiks.

Guðrún var í byrjunarliði Rosengård í Katalóníu í kvöld en snemma leiks var ljóst í hvað stefndi. Börsungar þurftu sigur til að tryggja sér toppsæti riðilsins og sigurinn var sannfærandi svo ekki sé meira sagt.

Asisat Oshoala skoraði tvívegis á fyrstu 16 mínútum leiksins og í raun bara spurning um hversu stór sigurinn yrði. Mapi Leon bætti svo við þriðja markinu áður en fyrri hálfleik var lokið.

Fridolina Rolfo, Marta Torrejon og Irene Paredes skoruðu svo allar eitt mark hver í síðari hálfleik og 6-0 stórsigur Barcelona staðreynd.

Bayern átti enn möguleika á að vinna riðilinn þegar Benfica kom í heimsókn. Til að það myndi gerast hefðu Guðrún og stöllur þurft að ná í stig í Katalóníu. Það vakti athygli að Glódís Perla Viggósdóttir, knattspyrnukona ársins á Íslandi, var á varamannabekk Bayern í kvöld. Fyrrum leikmaður ÍBV, Cloé Lacasse, var hins vegar á sínum stað í byrjunarliði Benfica.

Eftir markalausan fyrri hálfleik var það Klara Bühl sem skoraði tvívegis, í bæði skiptin eftir sendingu Georgiu Stanway, og lauk leiknum með 2-0 sigri Bayern.

Undir lok leiks kom Karólína Lea inn af bekknum hjá Bayern en hún hefur ekki spilað síðan hún lék með íslenska landsliðinu á Evrópumótinu síðastliðið sumar. Í viðtali við Vísi nýverið greindi hún frá því að endurkoma væri í kortunum og hún stefndi á að spila þennan leik.

D-riðill endar því þannig að Barcelona og Bayern eru með 15 stig en Barcelona með betri markatölu. Benfica er með sex stig og Rosengård án stiga.

Liðin sem eru komin í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar eru Barcelona, Bayern, Arsenal, Lyon, Wolfsburg, Roma, Chelsea og París Saint-Germain.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×