Enski boltinn

United virkjar ákvæði fjögurra en ekki hjá De Gea

Valur Páll Eiríksson skrifar
Erik ten Hag, stjóri United, ásamt David De Gea.
Erik ten Hag, stjóri United, ásamt David De Gea. EPA-EFE/ANDREW YATES

Manchester United hefur virkjað framlengingarákvæði samninga fjögurra leikmanna liðsins en forráðamenn félagsins ákváðu að gera það ekki hjá markverðinum David De Gea.

United framlengdi samninga Marcus Rashford, Diogo Dalot, Luke Shaw og miðjumannsins Fred. Allir voru þeir með ákvæði um eins árs framlengingu sem félagið gat virkjað einhliða.

Samningar þeirra fjögurra áttu allir að renna út næsta sumar, eftir rúma sex mánuði. Leikmennirnir geta því ekki farið frítt frá Manchester-borg í sumar en samkvæmt breskum fjölmiðlum mun félagið hefja viðræður um enn frekari framlengingu á samningi þeirra Dalot og Rashford á næstu vikum.

United ákvað ekki að virkja framlengingu á samningi spænska markvarðarins David De Gea en hann er á meðal launahærri leikmanna í ensku úrvalsdeildinni og fær hátt í 350 þúsund pund greidd vikulega, rúmlega 60 milljónir króna.

Liðið vill þó ekki losna við De Gea, en mun þó ekki framlengja við hann nema á lægri kjörum.

Manchester United snýr aftur úr HM-pásu annað kvöld þegar liðið mætir Jóhanni Berg Guðmundssyni og félögum í Burnley í enska deildabikarnum.

Liðið situr í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 26 stig, þremur frá Meistaradeildarsæti.

Nottingham Forest er næsti andstæðingur liðsins í deildinni, þann 27. desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×