Fótbolti

Ronaldo gæti samþykkt stjarnfræðilega hátt tilboð Sádanna fyrir árslok

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cristiano Ronaldo er markahæsti landsliðsmaður sögunnar.
Cristiano Ronaldo er markahæsti landsliðsmaður sögunnar. getty/Eric Verhoeven

Cristiano Ronaldo mun skrifa undir samning við sádí-arabíska félagið Al Nassr áður en árið er á enda. Samningurinn mun færa honum stjarnfræðilegar upphæðir.

Spænska blaðið Marca fullyrðir að Ronaldo muni semja við Al Nassr áður en árið 2023 gengur í garð.

Samningurinn sem Al Nassr hefur boðið Ronaldo gildir til 2025 og færir honum hvorki meira né minna en 175 milljónir punda í árslaun. Það eru rúmlega 30,4 milljarðar íslenskra króna, hvorki meira né minna.

Ronaldo er án félags eftir að hann yfirgaf Manchester United á meðan HM í Katar stóð. Skömmu áður hafði hann úthúðað öllu og öllum sem tengjast félaginu í viðtali við Piers Morgan.

Ronaldo skoraði aðeins eitt mark á HM þar sem Portúgal féll úr leik fyrir Marokkó í átta liða úrslitum. Hann er nú staddur við æfingar í Dúbaí og samkvæmt Marca bíður hann eftir því að gengið verði frá samningnum við Al Nassr.

Hinn 37 ára Ronaldo hafnaði því að fara til Sádí-Arabíu í sumar. Núna eru möguleikar Portúgalans hins vegar afar takmarkaðir og því líklegra en áður en hann samþykki svakalegt tilboð Al Nassr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×