Miklar samgöngutruflanir hafa verið á suðvesturlandi undafnarinn rúman sólarhring vegna mikillar snjókomu og skafrennings. Ástandið var einna verst á Grindavíkurvegi og Suðurstrandarvegi en þeim þurfti að loka vegna bíla sem sátu þar fastir í gær.
„Það var mikil vinna á Grindavíkurveginum. Það voru björgunarsveitir hinum megin frá, bæði Reykjavík og Suðurnesjunum, og við hérna megin, gröfur og ég veit ekki hvað og hvað. Við gerðum það sem var hægt að gera og það bara tók sinn tíma,“ segir Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík.
„Þetta er svakaleg vinna, sérstaklega þegar eru svona vegrið í miðjunni á veginum og köntunum. Það er ekki svigrúm til að gera nokkurn skapaðan hlut.“
Fjöldahjálparstöð í Bláa lóninu
Enn eru tíu fastir í íþróttahúsinu, þar sem fjöldahjálparstöð var opnuð, sem verið er að hjálpa að komast heim. Þeir eru búnir að vera veðurtepptir í sólarhring.

„Ég myndi giska á að með Bláa lóninu og öllu, við vorum náttúrulega í samstarfi við Bláa lónið með tvær fjöldahjálparstöðvar. Starfsfólkið þar sá um þá og svo var fjöldahjálparstöð hér í Grindavík. Ég giska á að samtals hafi þetta verið á milli þúsund og tólf hundruð manns sem voru innlyksa hérna,“ segir Bogi.
Margir sem sátu fastir hafi reynt að fara þessa leið suður á Þorlákshöfn og Selfoss og lengra austur þar sem heiðin var lokuð.
„Jú, jú. Það fékk alveg frábærar leiðbeiningar og ruðning hingað í fjöldahjálparstöð í staðin fyrir hinum megin. Ég veit ekki af hverju það skeði en það skeði alla vega. En við redduðum því bara,“ segir Bogi.
Vonar að landsmenn séu sprengjuglaðir
Óvíst sé hvenær verkefninu lauk.
„Ég veit bara að liðið mitt fór í svefn hálf fimm. Þá var komin smá ró í þetta.“
Svona verkefni sé gríðarlega dýrt og tímafrekt og nú stóli björgunarsveitir á að landsmenn verði sprengjuglaðir um áramótin.
„Nú treystir maður á að menn verði sprengjuglaðir. Því meira sem þú kaupir, því meira get ég hjálpað þér. Rótarskotin eru frábær líka fyrir þá sem ekki vilja sprengja.“