Króatía hefur lengi vel verið með fremstu íþróttaþjóðum í heimi, allavega í karlaflokki. Ásamt því að vera með fótboltalandslið í fremstu röð þá var handboltalandsliðið lengi vel með þeim bestu í heimi. Einnig er vert að taka fram að Króatía er með sigursælustu þjóðum í sögu sundknattleiks.
Hvað varðar fótboltann þá má segja að leikir Króatíu á HM sem nú fer fram í Katar sem og í Rússlandi fyrir fjórum árum minni á handboltaleiki liðsins þegar þjóðin var upp á sitt besta. Hraðinn er ekki mikill og það er líkt og Króatar vonist til að andstæðingar sínir sofni á endanum.
Mögulega er það ástæðan fyrir að báðir leikir Króatíu í útsláttarkeppninni á HM í Katar hafa endað með vítaspyrnukeppni. Það sama var upp á teningnum í Rússlandi en alls fór Króatía í þrjár framlengingar - og tvær vítaspyrnukeppnir - á leið sinni í úrslitaleikinn gegn Frakklandi.
Að gagnrýna leikstíl Króatíu er í raun ógerlegt þar sem um er að ræða þjóð sem telur fjórar milljónir. Síðasti leikur liðsins í Katar var gegn Brasilíu, þjóð sem telur vel yfir 200 milljónir. Þar áður var það Japan sem lá í valnum. Þó Japan sé lítið land að flatarmáli þá búa rúmlega 125 milljónir í landinu.
Eftir að Króatía vann til bronsverðlauna á HM 1998 kom smá lægð er varðar árangur á stórmótum í fótbolta. Það er þangað til 2018 í Rússlandi er liðið komst alla leið í úrslit. Þrátt fyrir töluverðar mannabreytingar og að öflugir leikmenn hafi verið skildir eftir heima getur Króatía endurtekið leikinn í Katar.
Króatar virðast kunna best við sig á stærsta sviðinu en liðið hefur aldrei náð álíka árangri á Evrópumótinu. Þar hefur Króatía lengst komist í 8-liða úrslit, árin 1996 og 2008.
Töframaðurinn Luka Modrić
Þó hann sé orðinn 37 ára gamall þá er fyrirliðinn Luka Modrić bæði hjartað og heilinn í liði Króata. Hann stýrir öllu þeirra spili á miðjunni og minnir um margt á Ivano Balić en sá stýrði handboltaliði þjóðarinnar um árabil. Báðir hafa reynst íslenska landsliðinu, hvort sem um ræðir fótbolta eða handbolta, erfiður ljár í þúfu.

Það er erfitt að bera saman árangur á stórmótum í fótbolta og handbolta þar sem þau eru árlegur viðburður í handboltaheiminum. Það verður þó ekki tekið af Balić og handboltalandsliðinu að árangurinn var hreint út sagt ótrúlegur til fjölda ára.
Króatía hefur unnið Ólympíuleikana tvisvar [Atlanta, 1996 og Aþenu, 2004] ásamt því að næla í brons einu sinni [Lundúnir, 2012]. Króatía varð heimsmeistari árið 2003 [Portúgal] en hefur alls fjórum sinnum farið alla leið í úrslitaleik HM. Þá endaði liðið í 3. sæti á HM árið 2013.
Króatíu hefur ekki enn tekist að vinna Evrópumótið en hefur þrívegis komit í úrslitaleikinn; 2008, 2010 og 2020. Þrisvar hefur Króatía svo unnið til bronsverðlauna á EM; 1994, 2012 og 2016.
Sagt það áður og segi enn. Króatar. Besta íþróttaþjóð heims pund fyrir pund. Ótrúlegir.
— Henry Birgir (@henrybirgir) December 9, 2022
Þó Modrić og félagar munu aldrei ná sama árangri og handboltalandsliðið er ljóst að hann og liðsfélagar sínir geta komist í guðatölu - ef þeir eru það nú ekki þegar - með því að slá Lionel Messi og félaga út í undanúrslitum HM. Miðað við árangur Króatíu til þessa og í Rússlandi væri heimskulegt að veðja gegn því.