Fótbolti

Fullyrðir að Óskar Örn muni leika með Grindavík á næsta tímabili

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Óskar Örn lék með Stjörnunni á seinasta tímabili.
Óskar Örn lék með Stjörnunni á seinasta tímabili. Vísir/Diego

Óskar Örn Hauksson, leikjahæsti leikmaður í sögu efstu deildar á Íslandi, mun leika með Grindavík í Lengjudeildinni á komandi tímabili.

Þetta fullyrðir Jóhann Már Helgason, sérfræðingur hlaðvarpsins Dr. Football, á Twitter-síðu sinni, en einnig er fjallað um málið á DV. Þá herma heimildir Vísis að leikmaðurinn hafi æft með liðinu í dag.

Óskar hefur leikið stærstan hluta ferilsins fyrir KR, en þessi 38 ára gamli leikmaður steig sínu fyrstu skref í efstu deild með Grindvíkingum eftir að hafa alist upp í Njarðvík. Óskar lék með Grindavík í tvö ár frá 2004 áður en hann hélt í Vesturbæinn.

Eftir 15 ára veru hjá KR fór Óskar svo til Stjörnunnar árið 2021 og lék eitt ár með félaginu. Hann rifti samningi sínum við félagið á dögunum og síðan hafa margir velt fyrir sér hvorum megin við Reykjanesbrautina hann muni enda. 

Nú virðist það vera orðið nokkuð ljóst að hann muni leika með Grindavík á komandi tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×