Erlent

Drengur dæmdur í um­sjá lækna til að gangast undir hjarta­að­gerð

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint. Getty

Drengur sem dæmdur var í umsjá lækna hefur gengist undir lífsnauðsynlega hjartaaðgerð á sjúkrahúsi í Auckland á Nýja-Sjálandi. 

Læknunum var dæmt tímabundið forræði yfir drengnum þar sem foreldrar hans vildu ekki að hann gengist undir aðgerðina ef það þýddi að honum yrði gefið „bólusett blóð“.

Sue Grey, lögmaður foreldranna, staðfesti í samtali við miðilinn RNZ í morgun að drengurinn, sem hefur verið kallaður Barn W, hefði gengist undir aðgerðina og að vel hefði heppnast til.

Síðastliðinn miðvikudag dæmdi hæstiréttur Nýja-Sjálands heilbrigðisyfirvöldum í vil en þau höfðu farið fram á að fá forræði yfir drengnum til að greiða fyrir hjartaðagerðinni. Þau sögðu drenginn, sem er aðeins sex mánaða gamall, ekki vera hugað líf án hennar.

Foreldrar drengsins höfðu sett sig upp á móti aðgerðinni, nema heilbrigðisyfirvöld gætu tryggt að syni þeirra yrði aðeins gefið blóð úr óbólusettum gjöfum, það er að segja einstaklingum sem hefðu ekki þegið bólusetningu gegn Covid-19.

Hjarta- og hjartaskurðlæknar drengsins fara nú með forsjá hans, að minnsta kosti þar til hann hefur náð sér eftir aðgerðina. Þess ber að geta að aðeins er um að ræða forræði yfir þeim ákvörðunum sem varða heilbrigði drengsins; allar aðrar ákvarðanir eru enn á höndum foreldra hans.

Foreldrarnir höfðu gefið út að þeir hygðust sætta sig við dóm hæstaréttar en í gær neyddist dómari til að gefa út tilskipun til foreldranna um að leyfa læknum að undirbúa drenginn fyrir aðgerðina, þar sem foreldrarnir höfðu reynt að koma í veg fyrir blóðprufur og röntgenmyndatökur á drengnum.

Málið hefur vakið heimsathygli og þá efndu andstæðingar bólusetninga til mótmæla fyrir utan sjúkrahúsið í Auckland í morgun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×