Innlent

„Kannski ágætt fyrir letingja“ en getur valdið miklu tjóni

Kristín Ólafsdóttir skrifar

Framkvæmdastjóri verslunar í bílavörubransanum segir stórvarasamt að nota heitt vatn til að bræða hrím af bílrúðum. Viðskiptavinir hans hafi margir orðið fyrir talsverðu tjóni við slíkar tilraunir.

Vetur konungur er mættur og bílstjórar byrjaðir að barma sér. Þeir þurfa nú að grípa til gamals vinar, sköfunnar, á köldum vetrarmorgnum og jafnvel kreditkortsins, ef hart er í ári.

Frostið, sem skall á af fullum þunga í höfuðborginni nú í vikunni, hefur skapað líflegar umræður á samfélagsmiðlum um úrbætur. Bent hefur verið á aðrar lausnir en sköfuna; til dæmis að fylla endurlokanlegan plastpoka með heitu vatni og strjúka honum yfir hélaða rúðu, eins og sést í fréttinni sem fylgir hér fyrir ofan.

Mælir alls ekki með heitu vatni

Algjör töfralausn, að því er virðist. En slík vatnsleikfimi getur verið varasöm, að sögn Hermanns Guðmundssonar, framkvæmdastjóra heildsölunnar Kemi.

„Það er ekki gott að gera það, þetta er kannski ágætt fyrir letingja. En ég mæli alls ekki með því að fólk til dæmis helli heitu vatni á rúður. Þær springa og brotna og getur orðið mikið tjón,“ segir Hermann.

Hermann Guðmundsson er framkvæmdastjóri heildsölunnar Kemi, þar sem fást ýmsir aukahlutir fyrir bíla.

Ýmislegt sé þó hægt að gera til að auðvelda sér lífið. Hermann nefnir sérstakt varnarefni sem sett er fyrirbyggjandi á rúðuna svo klakinn nái ekki haldi á henni, hrímeyði sem úðað er á hrímið sjálft og svo sérstaka rakapúða.

„Þú setur þetta bara í mottuna á bílnum eða bara í mælaborðið og hann dregur í sig allan raka og þá er miklu minni móða og klaki sem myndast í bílnum.“

Umtalsvert tjón

Kemi selur einnig bílrúður. Hermann segir marga hafa farið illa út úr heitavatnssulli á morgnana.

„Það eru mörg dæmi um það og svo skemmirðu líka þéttilista, þannig að tjónið getur verið umtalsvert.“

En til þess að losna algjörlega við alla fyrirhöfnina er líklega eitt ráð sem virkar betur en öll önnur: að skilja bílinn eftir heima og taka strætó, eða jafnvel ganga, í vinnuna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×