Síðustu daga hafa borist fréttir af því að Pelé hafi verið settur í lífslokameðferð vegna þess að krabbameinsmeðferð sem hann var í virkaði ekki.
Pelé hefur verið í meðferð eftir að æxli var fjarlægt úr þörmum hans fyrir rúmu ári. Hann var lagður inn á Albert Einstein sjúkrahúsið í Sao Paolo á þriðjudaginn í síðustu viku vegna hjartavandamála og bólgu víðsvegar um líkamann.
Samkvæmt upplýsingum frá læknum Pelés er ástand hans að lagast og dregið hefur úr sýkingu í öndunarfærum hans. Hann er í venjulegu herbergi, lífsmörk eru stöðug og engin ný vandamál hafa komið upp.
Pelé lét vita af sér í upphafi vikunnar og sagðist ætla að horfa á leik Brasilíu og Suður-Kóreu í sextán liða úrslitum HM í Katar í sjónvarpinu. Brassar unnu leikinn, 4-1, og eftir leikinn héldu þeir á borða til heiðurs Pelé.