Innlent

Þjófur hrækti í andlit búðarstarfsmanns og lagði á flótta

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla sinnti ýmsum málum í gærkvöldi og nótt.
Lögregla sinnti ýmsum málum í gærkvöldi og nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var tvisvar kölluð til vegna þjófnaða í borginni í gær. Í öðru tilvikinu var um að ræða unga konu, sem mun ítrekað hafa verið staðin að því að stela úr verslunum. 

Hún var staðinn að þjófnaði þar sem hún hugðist hafa með sér snyrtivörur, smákökur og fleira úr verslun í póstnúmerinu 103. Málið var afgreitt á vettvangi.

Hinn þjófnaðurinn átti sér stað í póstnúmerinu 108 en þar var um að ræða mann sem var stöðvaður þegar hann reyndi að yfirgefa verslun með vörur sem hann hafði ekki greitt fyrir. Hrækti maðurinn í andlit starfsmannsins sem reyndi að stöðva hann og hljóp svo út.

Annar starfsmaður elti manninn þar til maðurinn var handtekinn af lögreglu. Hann var færður á lögreglustöð en látinn laus að lokinni skýrslutöku.

Í Hafnarfirði var tilkynnt um mikla fíkniefnalykt í stigagangi fjölbýlishúss og afskipti höfð af konu vegna gruns um vörslu fíkniefna. Málið var afgreitt á vettvangi og ætluð fíkniefni fjarlægð.

Nokkrir voru stöðvaðir vegna umferðarlagabrota, meðal annars ökumaður sem ók á 137 km/klst á Vesturlandsvegi. Þá bárust tvær tilkynningar um útafakstur á Þingvallavegi. Í öðru tilvikinu var um að ræða minniháttar meiðsl.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×