Danmörk mætti Ástralíu í lokaumferð D-riðils heimsmeistaramótsins í fótbolta á miðvikudaginn var. Danir urðu að vinna leikinn til að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum á meðan jafntefli hefði mögulega nægt Áströlum en sigur myndi gulltryggja sætið í útsláttarkeppninni.
Það gekk lítið sem ekkert upp hjá danska liðinu sem lenti undir þegar klukkustund var liðin af leiknum. Kasper Hjulmand, þjálfari Dana, brást við með tvöfaldri breytingu tæpum tíu mínútum síðar ásamt því að annar af varamönnum liðsins fór með risastóran miða til fyrirliðans Eriksen.
Hvað stóð á miðanum vitum við heima í stofu ekkert um en Eriksen gerði þau mistök að missa, eða henda, miðanum í grasið eftir að lesa hvað stóð á honum. Skömmu síðar tók Mitchell Duke, leikmaður Ástralíu, miðann upp og hljóp með hann að hliðarlínunni og lét Graham Arnold, þjálfara Ástralíu, fá miðann.
Footage of *the* note falling into the wrong hands #FIFAWorldCup pic.twitter.com/Pe8cImNbgF
— Danish Football (@DanishFTBL) December 2, 2022
Örskömmu síðar gerði Arnold skiptingu sem og taktíska breytingu en Ástralía spilaði síðustu 20 mínútur leiksins eða svo með fimm manna vörn. Varnarmúrinn stóðst veikt áhlaup Dana og Ástralía hrósaði á endanum 1-0 sigri sem skilar liðinu inn í 16-liða úrslit HM á meðan danska liðið heldur heim á leið.
Hvort téður miði hafi skipt sköpum er hvers manns ágiskun en það er ljóst að þetta hjálpaði ekki Dönum og má segja að allt hafi gengið á aftur fótunum hjá þeim í Katar.
Ástralía mætir Argentínu í 16-liða úrslitum klukkan 20.00 annað kvöld, laugardag.