Fótbolti

Þjálfari Ástrala þakkar samfélagsmiðlabanni góðan árangur

Smári Jökull Jónsson skrifar
Graham Arnold og Aaron Mooy fagna eftir að Ástralir tryggðu sér sæti í 16-liða úrslitum heimsmeistarakeppninnar.
Graham Arnold og Aaron Mooy fagna eftir að Ástralir tryggðu sér sæti í 16-liða úrslitum heimsmeistarakeppninnar. Vísir/Getty

Graham Arnold er búinn að stýra Áströlum í 16-liða úrslit heimsmeistarakeppninnar í Katar eftir góðan sigur á Dönum í dag. Hann þakkar samfélagsmiðlabanni leikmanna því að liðið er komið svona langt í keppninni.

Ástralir komu mörgum á óvart þegar þeir tryggðu sér annað sætið í D-riðli og þar með sæti í 16-liða úrslitum heimsmeistarakeppninnar. Þeir tryggðu sér áframhald í keppninni með góðum 1-0 sigri á Dönum í dag og mæta heimsmeisturum Frakka í 16-liða úrslitunum á sunnudag.

Graham Arnold þjálfari Ástrala var gríðarlega ánægður með sína menn en þetta er aðeins í annað sinn sem Ástralía kemst í 16-liða úrslit heimsmeistaramótsins en þeim árangri náðu þeir einnig árið 2006 þegar þeir féllu síðan úr leik gegn verðandi heimsmeisturum Ítala eftir mikla dramatík.

„Ég er svo stoltur af vinnunni sem strákarnir hafa lagt á sig,“ sagði Arnold eftir sigurinn í dag en hann hefur verið þjálfari liðsins frá árinu 2018.

„Þessir strákar eru með frábært hugarfar. Við höfum unnið að þessu síðustu fjögur og hálfa árið, að hafa trú, orku og einbeitingu. Ég sá það í augunum á þeim að þeir voru tilbúnir í kvöld.“

Ástralir fagna marki Matthew Leckie gegn Dönum í dag.Vísir/Getty

Hann segir að liðið muni þó ekki fagna sigrinum gegn Dönum.

„Engin fagnaðarlæti! Það er þess vegna sem við unnum eftir frábæran sigur gegn Túnis. Engin fagnaðarlæti, engar tilfinningar, svefn og engir samfélagsmiðlar.“

Arnold segir að fjölmiðlar og samskiptamiðlar geti haft slæm áhrif.

„Ég veit hvaða áhrif þetta getur haft og þessir hlutir hafa mikil áhrif á frægt fólk, íþróttastjörnur og hvern sem er. Sama fólkið og styður þig slátrar þér daginn eftir.“

„Andlega er þetta stór þáttur og ef þetta hefur áhrif á heilastarfsemina þá skiptir ekki máli í hvernig formi þú ert, hversu tæknilega góður þú ert eða hversu góð taktík liðsins er. Leikmenn meðtaka það ekki því þeir eru ekki andlega tilbúnir.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×