Erlent

Dómari ógildir réttarhöldin yfir Masterson

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Masterson hefur ekki sést á skjánum frá því að ásakanirnar litu dagsins ljós.
Masterson hefur ekki sést á skjánum frá því að ásakanirnar litu dagsins ljós. Getty

Dómari ógilti réttarhöld yfir leikaranum Danny Masterson í gær, þar sem kviðdómurinn gat ekki náð saman um niðurstöðu. Masterson var ákærður fyrir þrjár nauðganir og hefur notið stuðnings Vísindakirkjunnar í baráttu sinni gegn ásökununum.

Dómarinn Charlaine F. Olmedo fyrirskipaði kviðdómendum að taka sér frí yfir þakkargjörðahátíðina eftir að þeir tjáðu henni 18. nóvember síðastliðinn að þeir kæmu sér ekki saman um niðurstöðu. Dómarinn ákvað í gær að ógilda réttarhöldin eftir að útséð varð að breyting yrði á afstöðu kviðdómenda.

Þetta þýðir að endurtaka þarf hin mánaðarlöngu réttarhöld og verður málið tekið fyrir að nýju í mars.

Að sögn kviðdómenda greiddu þeir sjö sinnum atkvæði á þriðjudag og miðvikudag en gátu ekki komist að sameiginlegri niðurstöðu um neinn ákæruliða. Ef marka má formann kviðdómsins vildi meirihluti kviðdómsins sýkna Masterson.

Konurnar þrjár sem sökuðu Masterson um nauðgun eru allar fyrrverandi meðlimir Vísindakirkjunnar, sem Masterson hefur tilheyrt í áratugi. Þær hafa greint frá ofsóknum af hálfu meðlima kirkjunnar eftir að þær stigu fram með ásakanir sínar.

Verjendur Masterson hafa sakað ákæruvaldið um að einblína á kirkjuna í málflutningi sínum en saksóknarinn Reinhold Mueller segir á móti að tilraunir kirkjunnar til að þagga niður í konunum sé ástæðan fyrir því að það hefur tekið tvo áratugi fyrir málið að rata fyrir dómstóla.

Ítarlega umfjöllun um málið má finna hjá Guardian.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×