Birkir Sveinsson, yfirmaður móta- og dómaramála hjá Knattspyrnusambandi Íslands, hélt fyrirlestur um mótamál á fundinum um síðustu helgi og tók þá sérstaklega fyrir gagnrýni á leikbönn vegna gulra spjalda.
Eftir að leikjum var fjölgað úr 22 í 27 á síðasta tímabili þá þótti mörgum ósanngjarnt að leikmenn væru áfram að fara í leikbann eftir fjórar áminningar.
Fleiri leikir en sömu reglur með leikbönn
Birkir reyndi að svara því hvort fjölgun leikja í Bestu deildunum kalli á breytingar hjá okkur á Íslandi og notaði samanburð við hin Norðurlöndin til að kanna það. Þetta kemur fram á heimasíðu KSÍ þar sem skoða má glærur frá fyrirlestri Birkis.
Leikmenn fara í fyrsta leikbann vegna spjalda eftir fjögur gul spjöld og skiptir þar engu máli þótt sé um fjórða leik eða 26. leik að ræða.
Birkir sýndi hins vegar fram á það í fyrirlestri sínum að það sé í raun vægari reglur á Íslandi en í deildum í nágrannalöndunum. Hann lagi líka áherslu á að þessi leikbönn eru til að verja leikmenn fyrir meiðslum.
Losna við spjöld í Svíþjóð
Í Svíþjóð er þó möguleiki á að losna við gult spjald með því að leik tíu leiki í röð án þess að fá spjald. Svíarnir fara aftur á móti í fyrsta leikbann við þriðja gula spjald. Hér fyrir neðan má sjá samanburð Birkis á gulum spjöldum í deildum á Norðurlöndunum.

„Það er því erfiðast fyrir leikmenn að fara leikbann á Íslandi vegna áminninga. Ég tel því ekki nauðsynlegt að gera breytingu á okkar reglum sem miði að því að fjölga áminningum sem þarf til að fara í leikbann. Nema auðvitað að markmiðið sé að draga úr verndinni sem leikmenn eiga að fá,“ skrifaði Birkir í niðurstöðum sínum.
Brot í undanúrslitaleikjum bikarsins
Birkir hefur líka áhyggjur af miklum fjölda gulra spjalda i undanúrslitaleikjum bikarsins. Áminningar í undanúrslitum karla árin 2021 og 2022 voru 6,75 á hvern leik en til samanburðar voru 4,70 gul spjöld á hvern leik í Bestu deild karla 2022.
„Spurning hvort við verðum ekki að finna aðferð til að þessi spjöld telji án þess þó að taka úrslitaleikinn af viðkomandi,“ skrifaði Birkir.