Fótbolti

Ole Martin segir að hann muni þjálfa KR en að Rúnar ráði ef þeir eru ósammála

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Martin Nesselquist og Rúnar Kristinsson munu stjórna KR-liðinu í Bestu deildinni næsta sumar.
Ole Martin Nesselquist og Rúnar Kristinsson munu stjórna KR-liðinu í Bestu deildinni næsta sumar. Samsett/KR & Getty

Rúnar Kristinsson virðist vera orðinn eins konar knattspyrnustjóri hjá karlaliði KR en þjálfun liðsins verði hér eftir í höndum Norðmannsins Ole Martin Nesselquist.

KR tilkynnti á dögunum að Ole Martin Nesselquist væri nýr aðstoðarþjálfari KR-liðsins en hann sjálfur segir í viðtali við norska blaðið Moss Avis að hlutverk hans sé stærra en það.

Hinn 29 ára gamli Nesselquist ræddi nýja starfið sitt við staðarblaðið sitt en hann hefur verið aðstoðarþjálfari hjá Viking.

Samkvæmt Ole þá er hann ekki að fara úr aðstoðarþjálfarastöðu í norsku úrvalsdeildinni í aðstoðarþjálfarastöðu í Bestu deildinni.

„Það er ég sem mun þjálfa A-liðið en ef að ég og Rúnar verðum ósammála um eitthvað þá er það hann sem á síðasta orðið,“ sagði Ole Martin Nesselquist við Moss Avis.

„Við hjá KR erum gífurlega ánægð að hafa náð að sannfæra Ole Martin um að koma til Íslands. Reynsla og menntun Ole Martin tala sínu máli og væntir KR mikils af honum. Hann er af mörgum álitinn einn allra efnilegasti þjálfari Noregs og ljóst erum að fá mikla þekkingu inn í félagið með honum. Hann hefur bæði þjálfað sjálfur meistaraflokka í deildarkeppni sem og svo hefur hann einnig reynslu af því að vera aðstoðarþjálfari á hæsta stigi í Noregi,“ sagði Rúnar Kristinsson sjálfur í frétt um þjálfararáðninguna á heimasíðu KR.

Ole byrjaði sinn þjálfaraferil í meistaraflokki sem aðalþjálfari Trossvik IF. Hann náði að stýra Trossvik upp um deild á sínu fyrsta tímabili sem þjálfari, þá aðeins nítján ára.

Síðan þá hefur Ole Martin þjálfað Moss FK og Strømmen áður en hann tók við sem aðstoðarþjálfari hjá Viking Stavanger í norsku úrvalsdeildinni, Eliteserien ásamt því að klára æðstu þjálfaragráðu UEFA, UEFA Pro.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.